Kosningaskjálfti magnast. mikil óvissa um stjórnarmyndun

Stóru skoðanakannanafyrirtækin birtu öll niðurstöður skoðanakannana nú fyrir helgina. Gallup, Félagsvísindastofnun HÍ og MMR byggja öll á stórum úrtökum og því er ekki annað hægt en að taka mikið mark á niðurstöðum þeirra þegar svo skammt er til kosninga. 
 
Útkoman er keimlík úr þessum þremur könnunum. Nokkurn veginn svona: Sjálfstæðisflokkur fengi 15 þingmenn, Píratar 12, VG 10, Viðreisn 8, Framsókn 6, Samfylking 6 og Björt framtíð 6.
 
Ef niðurstaðan yrði þessi gæti reynst erfitt að koma saman ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkur og Píratar hafa kepptst við að lýsa því yfir að hvorugur geti hugsað sér að vinna með hinum.
 
En úrslit kosninganna verða ekki eins og hér að framan greinir. Víst er að mikið á eftir að ganga á þessar tvær vikur fram að kosningum. Svo virðist sem mikill skjálfti sé hjá flestum framboðum. Enginn er öruggur með neitt og fæstir eru sáttir við það sem hér hefur verið sýnt. Ætla má að baráttan verði mikil og hörð fram að kosningum með tilheyrandi auglýsingaflóði og ýmsum uppákomum. Auk þess þarf að hafa í huga nokkrar staðreyndir sem gera má ráð fyrir að muni hafa áhrif á endanleg úrslit. Þar á meðal þetta:
 
  • Píratar eru að mælast með mjög hátt hlutfall fylgis hjá yngstu kjósendunum. Reynslan sýnir að unga fólkið skilar sér mun verr á kjörstað en hinir eldri. Því er viðbúið að Píratar hljóti allnokkru minna fylgi í kosningum en könnunum.
  • Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn sækja mikið fylgi í elstu aldurshópanna, 60 ára og eldri. Þeir mæta mjög vel á kjörstað. Léleg kjörsókn kemur þeim einnig til góða. Það mun auka fylgi þessara tveggja flokka frá könnunum. 
  • Framsókn hefur oft náð betri úrslitum en við var búist. Þeir hafa verið lagnir að kasta fram stórum kosningaloforðum á síðustu stundu sem hafa virkað. Fólk er hins vegar meðvitað um þessa staðreynd og mun trúlega vara sig betur á innantómum kosningaloforðum en oft áður.
  • Ætla má að á lokametrunum fram að kosningum verði ráðist harkalega á VG vegna misgjörða vinstri stjórnarinnar sem þeir hafa sloppið ótrúlega vel frá að svara fyrir. Morgunblaðið og fleiri fjölmiðlar munu ekki liggja á liði sínu í þeirri vegferð. Í þeim anda birti blaðið mjög harðan leiðara fyrir helgina þar sem vegið var miskunarlaust að Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG.
  • Fylgi Viðreisnar mælist nú kringum 12% sem mundi skila 8 þingsætum. Flokkurinn er nýr og hefur verið að kynna sig og frambjóðendur sína meðan hinir flokkarnir hafa átt fulltrúa á þingi sem hafa haft nægan tíma allt kjörtímabilið til að kynna sig. Nú er þingið farið heim og þá jafnast leikurinn. Mikill slagkraftur er í starfi Viðreisnar og frambjóðendur flokksins eru frambærilegir og ætla sér að ná lengra en kannanir sýna nú.
  • Samfylking og Björt framtíð þurfa að vera vel á verði til að ná örugglega mönnum inn á þing. Hjá þeim má ekki mikið út af bregða til að illa fari. Hins vegnar má ætla að jafnaðarmenn, gamlir og nýjir kratar, vakni upp í lokin og tryggi þeim báðum framhaldslíf á Alþingi Íslendinga.
 
Þegar allt framangreint er metið ætlar Dagfari að spá því að úrslit kosninganna verði þessi:
 
Sjálfstæðsiflokkur með 16 þingmenn, Viðreisn 10, Píratar 9, VG 9, Framsókn 7, Samfylking 7 og Björt framtíð 5 þingmenn. Þá er gert ráð fyrir að þeir flokkar sem fá enga menn kjörna á þing verði samtals með 7%.
 
Verði þetta niðurstaðan, þá opnast margir möguleikar á myndun þriggja flokka stjórnar:
 
  • Hrein vinstri stjórn VG, Pírata, Framsóknar og Samfylkingar. Alls 32 þingmenn.
  • Framhald núverandi stjórnar með Sjálfstæðisflokki, VG og Framsókn. “Þriggja framsóknarflokka stjórn”, eins og nefnt hefur verið. Alls með 32 þingmenn.
  • Hægri-miðjustjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Samfylkingar. Alls 33 þingmenn.
  • Miðju-vinstri stjórn Viðreisnar, VG, Pírata og Bjartrar framtíðar eða Samfylkingar. Reyndar fjögurra flokka stjórn með 33 eða 35 þingmenn á bak við sig.
 
Svo virðist að spennan sé meiri í komandi kosningum en oftast áður.