Konum boðið inn í karlaklefann

 

Einn er sá ósiður sem ég hef lengi ætlað mér að skrifa um. Ósiður þessi plagar suma nakta karla. Ég er að tala um karla í sundlaugum landsins, karla sem ljúka sínu baði með því að þurrka sjálfa sig og þá ekki síst eigin nára og rass full hressilega með handklæðinu áður en þeir klæða sig aftur í fötin. Til eru nokkrar ágætar aðferðir við þá einföldu athöfn að þurrka líkama í almannarými, flestar fullkomlega félagslegar. Fæstar ættu að kalla fram vandræðagang eða óþægindi fyrir aðra allsbera menn í kring en þó eru frávik frá því.

Þekkt er hér á landi að áhugafólk um sundferðir striplast  reglulega um meðal kynsystra og -bræðra. Slík er íslensk menning. Frjálsleg. Við striplumst í búningsklefum, striplumst í sturtu. Förum svo í sundföt en striplumst aftur að loknum sundspretti. Þetta er svo eðlilegt og sjálfsagt að þarf varla að ræða, en sumt sem þykir sjálfsagt þarf þó stundum að ræða!

Förum aðeins nánar yfir þetta. Þegar sundferð er lokið þá þurrkar maður sig. Mælt er með að þurrka allan líkamann. Flestir byrja efst, á andliti og hári og færa sig niður, hreinir og fínir að loknum sundspretti.  Þetta er vel hægt að gera án þess að trufli annað fólk.

Áður en lengra er haldið verður að geta þess að eðlilega get ég aðeins tjáð mig um það sem gerist í karlaklefum sundlauganna, ég þekki ekki menningarsögu kvenna í búningsklefunum, fyrir vikið er þetta kynjaður pistill. Í þessum pistli fá konur sumsé að líta inn í karlaklefann. Þar eru sumir hlédrægir, fara út í horn og láta lítið fyrir sér fara meðan þeir þurrka sér. Ekki er rétt að gera neina kröfu til slíks, þótt blygðunarsemi fólks kunni að vera mismunandi. En í litningadeildinni sem ég hef aðgang að má sumsé einnig finna karla sem virðast í eins konar vímu að loknum góðum sundspretti. Hegða sér þá gjarnan líkt og þeir séu einir í þurrkklefanum. Ég öfunda þessa manngerð stundum. En hluti hópsins gengur of langt.

Komum við þá aftur að náranum sem áður er getið.

Ekkert er verra en að uppgötva, t.d. þegar maður dregur handklæðið frá eigin höfði eftir hárþurrkun, að allt of nálægt manni hefur laumað sér maður sem sést ekki fyrir með athöfnum sínum. Til er sú manngerð sem bæði fer of nálægt manni og stingur að auki handklæði milli fóta sér og þurrkar fram og aftur, refsar pung í leiðinni, með svo miklum látum að loft fer á hreyfingu og blástur stendur þá af athæfinu. Þegar nakinn maður í sundklefa er kynntur fyrir hryssunni Golu frá Nárastöðum með þessum hætti er viðbúið að endorfínið í líkamanum hrynji, sem þó er helsti hvati sundferða. Gildir einu þótt karlar séu hreinir og fínir að loknu baðinu þegar þeir djöflast svona. Frá þessum prívatstöðum þeirra vill maður ekki finna blástur. Punktur.

Kannski er þessi pistill kominn í hóp þeirra vandræðalegustu í sögu Internetsins. En gætum við haft þetta í huga, kynbræður góðir, næst þegar við hittumst í sundlaugum landsins? Gætum við hver gefið öðrum örlítið meira pláss og gætu hinir duglegustu aðeins reynt að halda aftur af sér í þurrkun og blæstri?

Og eitt enn: Er þetta eins í kvennaklefanum?