Katrín jakobsdóttir féll á fyrsta stóra prófinu

Formaður Vinstri grænna er orðinn forsætisráðherra en það hefur ekkert breyst. Landsmenn hafa býsnast yfir spillingu og sukki gömlu framsóknarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, en nú hefur VG tekið forystu í ríkisstjórn til þess eins að halda óbreyttu ástandi. Það á að halda áfram þöggun og virðingarleysi gagnvart lögum og meginreglum.

 

Katrín Jakobsdóttir lýsir því yfir að hún ætli ekki að gera kröfu um að Sigríður Andersen segði af sér embætti dómsmálaráðherra þó svo Hæstiréttur hafi dæmt hana seka um brot á stjórnsýslulögum. Þegar dómur féll var Sigríður fljót að svara því til að hún mundi ekki segja af sér og svaraði með sama hroka og áður að þessi dómur hefði engin áhrif á stöðu hennar innan ríkisstjórnarinnar. Ekki örlaði á neinni auðmýkt. Formaður Sjálfstæðisflokksins tók í sama streng. Auðvitað átti hann að setja Sigríði Andersen af eftir að hún sem dómsmálaráðherra var orðin lögbrjótur samkvæmt dómi Hæstaréttar. Hvernig getur fólk tekið æðsta dómstól landsins alvarlega þegar yfirmaður dómstólanna, sjálfur dómsmálaráðherrann, kemst upp með að hunsa dóm Hæstaréttar?

 

Bjarni Benediktsson er einfaldlega svo veikur formaður Sjálfstæðisflokksins að hann hefur ekki treyst sér til að setja Sigríði af eins og rétt og sjálfsagt hefði verið. Sigríður var í lykilhlutverki vegna þeirra barnaníðingsmála sem á endanum felldu síðustu ríkisstjórn. Hún var þúfan sem velti því hlassi. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi sannaðist þar. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll út af vandræðamáli sem tengdist föður Bjarna en Sigríður var sá ráðherra sem klúðraði meðferð málsins. En Hæstiréttir var ekki að dæma hana fyrir það, heldur brot á stjórnsýslulögum vegna skipunar dómara þar sem hún vék frá faglegum vinnubrögðum með því að beita pólitísku mati.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað bætt veika stöðu sína með því að skipta Sigríði Andersen út fyrir annan ráðherra sem hefur ekki hlotið dóm í Hæstarétti. Auðvelt hefði verið að færa Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur til og gera hana að dómsmálaráðherra en hún er löglærð og starfaði áður sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Þá hefðu Jón Gunnarsson eða Páll Magnússon getað tekið við ráðuneyti iðnaðar-og ferðamála. Þeir hefðu trúlega verið fáanlegir til þess.

 

Úr því Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki kjark og þor til að setja dæmdan dómsmálaráðherrann af, þá átti forsætisráðherra að krefjast þess. En Katrín hefur heldur ekki kjark til þess. En telur að það þurfi að “gaumgæfa” niðurstöðu Hæstaréttar. Æ, æ. Ansi var það klént. Það hefur ekkert breyst þó Vinstri grænn sé orðinn forsætisráðherra. Mikið hljóta stuðningsmenn VG að vera sárir og svekktir út af þessari niðurstöðu.

 

Katrín Jakobsdóttir féll á fyrsta stóra prófinu sem forsætisráðherra. Hún virðist ætla að halda áfram að breiða yfir sukkið og vera meðvirk með gömlu valdaflokkunum.

 

Svo má velta því fyrir sér hvaða skilaboð eru í þessu fólgin gagnvart öðrum sem dæmdir eru fyrir lögbrot í Hæstarétti. Eiga þeir sem hljóta dóma fyrir t.d. fjársvik að neita að afplána dóma sína og segja í staðinn: “Við erum ekki sammála dómi Hæstaréttar og við ætlum að gaumgæfa dóminn, taka okkur á og hætti lögbrotum. Það mun bara ganga betur næst.”

 

Trúverðugleiki forsætisráðherra hefur beðið hnekki.

 

Rtá.