Jón baldvin til höfuðs kratarósinni?

Sumir velta nú fyrir sér hvers vegna Jón Baldvin Hannibalsson henti bombu inn í íslenska þjóðmálaumræðu í gær. Sjálfur guðfaðir ESB-tengslanna segist hafa gengið af fyrri trú sinni, í ESB sé allt í rjúkandi rúst núna, honum hafi snúist hugur um aðild.

Einkum hafa framsóknarmenn og sjálfstæðismenn glaðst mikinn og vitna nú óspart til Jóns Baldvins likt og nýr leiðtogi hafi verið fundinn.

Flestir sem fylgst hafa með vandamálum og átökum innan ESB-landanna vita að ESB-löndin hafa verið í erfiðri stöðu. Sú staða er m.a. tilkomin vegna þess að á aðildarlöndunum liggja skyldur, t.d. með því að bregðast við flóttamannastraumi frá stríðshjráðum löndum í suðri. Skyldur ESB-landanna eru samofnar því hugsjónabandalagi sem aðildarsamtökin eru, að minnka sem mest líkur á ófriði og hafa mannréttindi sem flestra í heiðri. Angela Merkel bauð flóttamönnum opinn faðminn á meðan íslenska býrókratían var ekkert að flýta sér þegar neyðin í Sýrlandi varð mest. Við vorum ekkert að flýta okkur að handvelja nokkra flóttamenn um síðir, flóttamenn sem eru ólíklegir með öllu til að verða nokkur byrði á Íslendingum. Þar var ekki spurt um neyðina stærsta. Samt fékk ráðafólk hér hatursbréf - fyrir það eitt að viljum opna þorpin okkar fyrir \"útlendingum\".
Á sama tíma veður Ásmundur Friðriksson þingmaður uppi með einangrunarhyggju sína, lítt manneskjulegar skoðanir sem hellingur af fólki stekkur þó á.
Á sama tíma og Ásmundur skorar feitt í Reykjavík síðdegis sparkar Jón Baldvin Hannibalsson í fyrrum kratabaklandið sitt, reynir um leið að kollvarpa einum helsta hugmyndafræðilega tilgangi á bak við stefnu Samfylkingarinnar. Kannski er honum bara illa við Árna Pál og co, veit að sáralítið þarf til að Samfylkingin fái náðarhöggið. En hvaða gamli krataforingi sparkar í fyrrum samherja sína, eina flokkinn hér á landi sem staðið hefur fyrir ESB-tengslum og jafnaðarmennsku umfram landamæri? Gerir góður stjórnmálamaður svoleiðis?

Kannski er yfirhöfuð ekki góð ráðstöfun á tíma að pæla í því hvað valdi grundvallar sinnaskiptum Jóns Baldvins? En það þarf hann að þola í staðinn nú að lokinni afferu sinni, að allt sem hann hefur sagt áður um kratismann og ESB-löndin verður nú skoðað í nýju ljósi. Þar kann að vera að hugtakið ómerkingur muni síðar koma við sögu. Vegna þess að annað hvort hefur maður hugsjón eða ekki. Maður lætur ekki tímabundið pus stöðva sig í þeim leiðum sem maður trúir á til að gera heiminn betri? Eða hvað?

Jón Baldvin gerði vel á sínum tíma hvað varðaði frelsi Eystrasaltslandanna. En hin síðari ár fer hann ekki alltaf vel með þá ábyrgð sem hann hefur þó enn sem fv. valdakarl.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)