Íslenska lygin


Manni verður eiginlega óglatt yfir því hvað lygi er orðin ráðandi í íslensku samfélagi.
Ekki þó meðal öryrkja, smiða, hjúkrunarfræðinga eða verkamanna að því er best er vitað.
Heldur hjá ráðandi viðskipta- og stjórnmálamönnum.

Einn fylgiskur lyga er að hver og einn sem gerir í brækurnar virðist geta sagt hvað sem er og svo er vitnað í það eins og heilagan sannleik. Orð eru vigtuð eftir því hver segir þau fremur en að mat sé lagt á trúverðugleika skýringanna eða staldrað nánar við athæfið, verknaðinn sjálfan, uppsprettu lygaspunans sem ætti þó að vera aðalatriðið. Kjarni mála gleymist oft furðu fljótt, eftiráskýringar valdamanna, varnarviðbrögðin, þykja gildar upplýsingar jafnvel heimildir; þvæla sem sérhverju sæmilega skynsömu mannsbarni má þó vera ljóst að eru ekkert annað en lygi. Lygi sem gripið er til í því skyni að hylma yfir vonda verknaði, svo sem skattahliðranir, taka stöðu gegn krónunni, aðgerðir sem valda gengisfalli osfrv. Athæfi sem skapa mismunun á meðal íslenskra borgara og veikja innviði okkar samfélags s.s. heilbrigðis- og velferðarkerfi.

Nánast hver einasti útrásarvíkingur laug, bæði fyrir og eftir hrun. Enga iðrun hefur verið að finna þar á bæ þrátt fyrir þunga fangelsisdóma sumra. Að hopa hvergi heldur ljúga, ljúga, sjúga, sjúga, hóta, hóta, storka vitinu, ögra skynseminni með ósvífnu bulli. Sú virðist íslenska leiðin.
Vondir viðskiptamenn eru ekki einu skúrkar landsins. Svipaða sögu er að segja um allt of marga stjórnmálamenn. Sigmundur Davíð laug, Bjarni Ben laug, Ólafur Ragnar laug, það væri hægt að halda áfram með listann lengi, ég nenni því ekki, það er svo deprímerandi. En að fráfarandi forsætisráðherra teldi sig ekki skulda eigin þjóð einlægt samtal þegar hann hrökklaðist frá völdum, fyrsti íslenski ráðherrann sem missir sinn stól gagngert vegna lyga og spillingar, segir allt sem segja þarf um hinar helsjúku fyrirmyndir landsmanna. Lygin þykir norm í heimi hinna hæst settu og hana þarf ekkert að skýra frekar!

Lygin skaut rótum á svipuðum tíma og póstmódernísk afstæðishyggja steig vangadans með nýfrjálshyggjunni og fór að útvatna fyrum gróin gildi. Furðu margir keyptu um tíma að allt væri afstætt, að enginn væri þess umkominn að höndla neinn sannleika. Heimurinn var sagður snúast um ólík sjónarhorn og ekki orð um það meir! En afstæðishyggjan er iðulega yfirbreiðsla yfir lygi. Það er til sannleikur og það er til lygi. Ólík sjónarhorn eru vissulega til líka, það veit sá sem hefur starfað að blaðamennsku í áratugi. En það getur aldrei verið afstætt hvort einhver velur að geyma sitt fé í aflandsskjóli. Annað hvort gerir hann það eða ekki. Annað hvort er það siðlegt eða ekki. Nágrannaþjóðirnar hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé siðferðislega óverjandi. Af hverju ætti annað eiga við hér?

Vegna Panamlekans og pólitísks hreinsunarstarfs í kjölfarið kann að vera að von sé að fæðast til að snúa samfélaginu af braut lyganna. Opinberar fígúrur sem fá greitt frá ríkinu til að stunda trúnaðarstörf fyrir almenning eiga enda ekki að komast upp með að ljúga í almenning og allra síst eftir að traust hinna sömu er fokið út í veður og vind meðal almennings vegna verknaða þeirra. Verk þeirra eiga eftir að verða dæmd af sögunni og m.a. með því að menn grípa til endalausra lyga í stað þess að viðurkenna, biðjast afsökunar, reyna að skapa frið á ný við eigin samfélag. Fæstir bankaglæpona virtust hafa nokkurn áhuga á því. Þeir eru búnir að ræna sjoppuna og ætla að njóta þýfisins í útlöndum. En mann grunar að þeim líði ekki vel, að dæma sjálfan sig í útlegð frá eigin fósturjörð vegna glæpa og svika er hverjum Íslendingi andleg raun, líka auðmönnum.

Samfélagið byggist upp á heimilum. Leiðin sem fjölskyldur fara þegar upp kemur ágreiningsmál er ekki að ljúga, svíkja og sýna oflætinu meðvirkni. Af hverju ættu stjórnendur samfélagsins þá að komast upp með hroka, lygar og frekju ef við kennum börnunum okkar að besta leiðin til að halda áfram í kjölfar mistaka sé að viðurkenna þau og bæta fyrir brotin. Axla ábyrgð. Er íslensk þjóð enn í höndum gíslatökumanna? Var og er tilgangur lyganna að gera okkur meðvirk ofbeldismönnunum? Til að þeir geti haldið áfram að ræna sjoppuna?

Siðvæddar þjóðir láta sér ekki duga svör um að einhver hafi gleymt einhverju þegar æðstu ráðamenn eru staðnir að lygum.
Burt með lygina. Hún er ógeð.

Burt með lygarana. Þeir þurfa á hjálp að halda.
Björn Þorláksson