Hvorki vinstri né grænir þjóna sægreifum grímulaust

Jónas Kristjánsson er yfir sig hneykslaður á þeirri ófyrirleitni ríkisstjórnarinnar að ætla nú að lækka veiðileyfagjöldin um 3 milljarða króna. Hann er ekki einn um þá skoðun. Flestir eru orðlausir yfir hroka og taktleysi rîkisstjórnarinnar vegna þessa.

Á vef sínum hneykslast Jónas mest á Vinstri Grænum að láta hafa sig út í þetta. Þjónkun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar við sægreifa og bændur er löngu þekkt. En kjósendur hafa ætlast til annars af VG.

Jónas segir að nú sé svo komið að Vinstri Grænir séu Hvorki Vinstri né Grænir.

Tillaga um að gefa sægreifum 3 milljarða kemur fram í þinginu í vikunni EFTIR kosningar. Er það tilviljun? Vesalings Lilja Rafney Magnúsdóttir var látin tala fyrir málinu en hún er óbreyttur þingmaður VG - eða öllu heldur HVG (Hvorki Vinstri né Grænir). Hvar var sjávarútvegsráðherra? Hann kom sér undan þessu skítverki.

Því er haldið fram að afkoma sjávarútvegs sé verri en verið hefur. Ekki verður það séð af fréttum sem birtast um milljarðaafkomu og milljarðaarðgreiðslur margra fyrirtækja í sjávarútvegi. Sem betur fer! Sem betur fer fyrir eigendur fyrirtækjanna og samfélagið í heild!

Það er ekkert tilefni til að væla. Og þá eiga menn ekki að væla. Grátkór LÍÚ ætti að vera löngu dauður enda gladdi hann fáa og var sægreifum ekki til sóma.

Vinstri Grænir (HVG) eiga ekki að láta samstarfsflokkana fara svona með sig.

Náði Katrín Jakobsdóttir ekki skilaboðum kjósenda um síðustu helgi?:  4.6% fylgi í Reykjavík og 1 fulltrúi af 23 en enginn - núll - fulltrúi í Kópavogi, Hafnarfirði eða Reykjanesbæ.

Hvorki Vinstri né Grænir (HVG) bæta stöðu sína með milljarðagjöf til sægreifa. Þeir verða að freista þess að hysja upp um sig með öðrum hætti.

Rtá.