Hvers vegna gerir sigmundur út á fáfræðina?

Fólk sem sæmilega fylgist með rak upp stór auku þegar Sigmundur Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, kynnti ýmis stefnumál flokksins sem hann stofnaði utan um sjálfan sig, Miðflokksins. Aðeins tvennt kemur til greina til að skýra þau ólíkindi sem þá komu fram. 
Annars vegar að fyrrverandi forsætisráðherra sé innilega fáfróður og jafnvel forsætisráðherraembættið í þrjú ár hafi ekkert bætt úr.
Hinn kosturinn er svosem ekkert skárri: Að hann viti betur, en kjósi að rugla til þess að slá ryki í augu fólks, blekkja!

Nægir að taka tvö dæmi. Hann lofar því hátíðlega að beita \"forkaupsrétti\" til að kaupa Arion banka og gefa síðan almenningi þriðjungshlut í bankanum. Í fyrsta lagi er enginn forkaupsréttur til staðar, í öðru lagi er það í meira lagi skrítin kosningastefna að ætla að láta skattgreiðendur kaupa banka og síðan \"gefa\" þeim hlut í honum aftur. Hver sér ekki í gegnum svona loddarabrögð?

Síðara dæmið er \"stefna\" sem Sigmundur boðaði um lífeyrissjóðina. Afar óljóst plagg, en samt fullt af vitleysu og rangindum. Til dæmis er ein helsta forsendan hans að norski olíusjóðurinn sé \"lífeyrissjóður Norðmanna\"! Það er nú það! Norski olíusjóðurinn, sem svo er kallaður, er nefnilega alls ekki og hefur aldrei verið lífeyrissjóður! Veit fyrrverandi forsætisráðherra þetta ekki? Eða veit hann en reynir samt að villa um fyrir almenningi? Þetta má t.d. glöggt sjá í úttekt Más Wolfgangs Mixa, lektors í fjármálum við HR í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag. Þar kemur fram að erlendar eignir norsku lífeyrissjóðanna séu um 3% af vergri landsframleiðslu Norðmanna, en hlutfall erlendra eigna íslensku lífeyrissjóðanna af VLF það þriðja hæsta innan OECD, 34%.

Þá er reyndar eftir að velta fyrir sér hverskonar hugur búi að baki hjá þeim sem hafa ekki öðru út að spila í kosningabaráttunni en að læsa klónum í eftirlaunasjóði landsmanna. Guðrún Pétursdóttir, frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavík norður, áttar sig á þessu og birtir netta grein í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni \"Láttu lífeyrinn minn vera!\" Þar slær Guðrun snyrtilega á putta hinna fingralöngu og segir: \"Það má aldrei gerast að þetta öryggis net þjóðarinnar sé lagt undir í fjárhættuspili, með hvaða formerkjum sem er. Lífeyrissparnaður er ekki skattur – hann er eign. Burt með krumlurnar, Sigmundur! Snertu ekki lífeyrinn minn!\"

 

Rtá