Hvernig getur offramleiðsla lambakjöts verið vandi ríkissjóðs?

Bændur virðast ekki kunna að stýra framleiðslu sinni á lambakjöti. Nú er eftirspurn eftir afurðum af 400,000 lömbum en þá skipuleggja bændur rekstur sinn þannig að 600,000 lömb koma til slátrunar í haust.
 
Það veldur að vonum óheppilegri birgðasöfnun eins og gerist hjá þeim sem kunna ekki að stýra framleiðslu sinni.
 
Það sem er sérstakt við þetta er að sauðfjárbændur líta þannig á að ómarkviss og illa skipulagður rekstur þeirra sé vandamál ríkissjóðs og þar með skattgreiðenda. Þetta er auðvitað alger misskilningur því bændur verða sjálfir að bera ábyrgð á handvömm í eigin rekstri eins og aðrir atvinnurekendur.
 
Atvinnumálanefnd þingsins ætlar að koma saman eftir helgina til að svara því hvernig vandi sauðfjárbænda verði leystur.
 
Ekki getur það verið verkefni Alþingis að leysa vanda einstakra fyrirtækja eða atvinnugreina sem kunna ekki að gera áætlanir og koma sér þannig í taprekstur.
 
Í gildi er búvörusamningur sem fyrri ríkisstjórn gerði. Hann er skattgreiðendum dýr og óhagstæður. Auðvitað stendur ríkið við gerða samninga en bændur geta ekki heimtað meira en það af ríkissjóði og skattgreiðendum.
 
Pilsfaldakapítalismi á ekki að líðast. Kunni bændur ekki fótum sínum forráð í rekstri þá er það þeirra vandi en ekki ríkisins.
 
Atvinnufyrirtæki geta ekki sent ríkissjóði reikninginn ef á móti blæs. Það tíðkast ekki í verslun, iðnaði, sjávarútvegi eða ferðaþjónustu.
 
Hvers vegna ætti að gilda annað um sauðfjárrækt? Eða eru bændur að halda því fram að sauðfjárrækt sé þá ekki atvinnurekstur eftir allt saman?
 
Rtá