Hver verða viðbrögð stjórnar lánasjóðs sveitarfélaga?

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, hefur nú viðurkennt frumhlaup sitt gagnvart formanni Viðreisnar, Benedikt Jóhannessyni, og beðist afsökunar á Facebook. Það er að vísu ekki nægilegt því hann birti staðlausar ásakanir sínar í Morgunblaðinu. Ekki er unnt að líta á að hann hafi komið afsökunarbeiðni sinni á framfæri með viðunandi hætti fyrr en hann hefur birt afsökunarbeiðni í Morgunblaðinu á sama stað og níðgrein hans birtist. Kannanir sýna að Morgunblaðið er einkum lesið af eldra fólki, 60 ára og yfir. Ekki er víst að sá aldurshópur sé mjög mikið á Facebook og því dugar ekki að biðjast afsökunar þar.

Fróðlegt verður að sjá hvernig stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga bregst við þessu alvarlega broti Óttars Guðjónssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins. Hann skrifar grein með ávirðingum í garð stjórnmálamanns þar sem sakir eru bornar á hann vegna meintra innherjasvika. Á daginn kemur að ásakanir Óttars eru innstæðulausar með öllu og FME hefur yfirfarið málið og staðfest að öll framkvæmd þess var í samræmi við lög og reglur.

Lánasjóður sveitarfélaga er opinbert fjármálafyrirtæki. Framkvæmdastjóri sjóðsins blandar sér í lákúrulega pólitík og flaggar starfstitli sínum sem framkvæmdastjóri þessa opinbera fjármálafyrirtækis, Lánasjóðs sveitarfélaga. Hvernig ætlar stjórn sjóðsins að bregðast við? Lætur hún nægja að veita Óttari opinbera áminningu eða verður honum vikið úr starfi sem við fyrstu sýn virðist vera hið rétta í stöðunni.

Vel verður fylgst með viðbrögðum stjórnar sjóðsins vegna þessa máls. Hún er skipuð þeim Magnúsi B. Jónssyni, sveitarstjóra Skagastrandar, en hann er formaður. Auk hans sitja í stjórninni Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, Elliði Vignisson í Vestmannaeyjum, Helga Benediktsdóttir frá Reykjavíkurborg og Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi í Fjarðarbyggð.

Dagfari trúir því ekki að stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga láti þetta alvarlega brot Óttars Guðjónssonar óátalið. Verði það svo, má fastlega gera ráð fyrir að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem ber siðferðislega ábyrgð á lánasjóðnum, grípi í taumana en í þeirri stjórn eru meðal annarra: Halldór Halldórsson, Skúli Helgason og Björn Blöndal frá borgarstjórn Reykjavíkur, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæ, Eiríkur Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar og Ísólfur Gylfi Pálmason fyrrverandi þingmaður af Suðurlandi.

Hvað sem líður viðbrögðum þessara opinberu stjórna, má ætla að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins með þá Óttar Guðjónsson, Hannes Hólmstein og Óla Björn Kárason í fararbroddi þurfi að vanda betur til verka áður en hún lætur til skarar skríða að nýju gegn pólitískum keppinautum flokksins. RÚV gerði í hádegisfréttum að umtalsefni nafnlausan Facebook-áróður flokksins gegn stjórnarandstöðunni. Grétar Eyþórsson, prófessor á Akureyri sagði í þeirri frétt að vinnubrögð af þessu tagi séu ekki til fyrirmyndar og um nýja þróun sé að ræða í íslenskum stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn er að færa stjórnmálabaráttu hér á landi niður á áður óþekkt plan ómerkilegheita. Ekki er víst að það muni skila flokknum fylgisaukningu. 

Menn velta því nú fyrir sér hvort þessi vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins séu tíðkuð með samþykki formanns og varaformanns flokksins.