Hvar liggja öfgarnar?

 

Ljóst er að drjúgur hluti stjórnmálamanna víða um heim er bæði hræddur og hissa vegna formannskjörsins í breska Verkamannaflokknum. Kjörið er líklegt til að hafa áhrif á alþjóðastjórnmál og hafa menn borið stórsigur Jeremy Corbyn saman við sigur Tony Blair á sínum tíma. Ekki vegna þess að þeir tveir eigi margt sameiginlegt heldur vegna þess svo eitt dæmi sé tekið að Margaret Thatcher hafi haft velþóknun á Blair. Sömu sögu er ekki beint að segja nú meðal talsmanna Íhaldsflokksins. Hinn vinstri sinnaði, sumpart óhefðbundni stjórnmálamaður Jeremy Corbyn, er hvorki meira né minna en ógn við þjóðaröryggi Breta samkvæmt Cameron!

Corbyn leggur áherslu á ýmis mál sem kölluð hafa verið afturhvarf. Hann telur hlut ríkisins í samgöngum eiga að vera mikinn, talar fyrir jöfnuði og almennri velferð. Hann hyggst hækka skatta á hátekjufólk og erlendir þjóðhöfðingjar greina nýjan tón í sýn hins nýja foringja gagnvart samábyrgð alls mannkyns. Andstæðingarnir sem vilja óbreytta mismunun lýsa áherslum hans sem öfgum.

En í hverju felast öfgar samtímans? Þegar svo er komið að hugmyndafræði sem frelsaði heiminn undan fasisma og ógnarstjórn kommúnistaríkja hefur þróast í hreina rányrkju, þegar ægiöfl efnahagspólitíkur traðka almenning niður, þegar lýðræðið er orðið að eign markaðarins en ekki almennings, þegar stríð og friður lúta græðgi og hagsmunum hinna ráðandi frekar en mannúð, þegar stefnir í uppkaup almennra mannréttinda og jafnvel neysluvatnsins getur verið nokkuð snúið að greina öfgarnar frá hinu hinu hefðbundna.

Er kannski svo komið að hagsmunir fjöldans snúi á haus? Felst lausnin í að rétta þá við? Þarf öfgar til að mæta öfgum er svo enn önnur spurning.