Hvað verður um sigmund davíð?

 Jóhannes Kr. Kristjánsson, Reykjavík media, hlaut \"blaðamannaverðlaun ársins 2016\" fyrir rannsókn á Panamaskjölunum þegar Blaðamannafélag Íslands veitti Blaðamannaverðlaun ársins um síðustu helgi.

Hér er á ferðinni mesti heiður sem íslenskum fjölmiðlamanni getur hlotnast. Flestir eru þeirrar skoðunar að Jóhannes hafi verið einkar vel að þessum heiðri kominn enda leiddu uppljóstranir hans til þess að forsætisráðherra Íslands hrökklaðist frá völdum.

Á sama tíma hamaðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við að undirstrika í fjölmiðlum að hann er ennþá í fullkominni afneitun vegna atburðanna sem felldu hann í apríl 2016. Sigmundur heldur því fram að viðtal við hann hafi verið falsað, sama viðtalið og hin virtu verðlaun voru veitt fyrir. Allir hljóta að sjá hve kjánalegar málflutningur hans er.

Þá hélt hann því fram að hann hafi haft í hendi sér að taka Bjarna Benediktsson með sér í fallinu vegna þess að hans var getið í Panamaskjölunum. Þetta er alrangt.

Sigmundur var rúinn trausti í báðum stjórnarflokkunum og meðal landsmanna. Hann varð að víkja til að ríkisstjórnin félli ekki strax. Annað þurfti ekki til. En kjörtímabilið var stytt um hálft ár.

En hvað verður um Sigmund Davíð?

Hann situr á þingi og veldur flokki sínum viðvarandi og ómældum skaða.

Þeir bjartsýnustu í flokknum telja að hann muni brátt segja af sér þingmennsku og hverfa til útlanda.

En úr herbúðum Sigmundar Davíðs heyrist nú að á honum sé ekkert fararsnið. Hann ætli sér að vinna formannsstólinn í Framsókn til baka hvað sem það kostar.

Hörðustu stuðningsmenn Sigmundar segja að Sigurður Ingi muni ekki nenna að standa í áframhaldandi átökum innan flokksins. Hann muni víkja og snúa sér að nýju að starfi dýralæknis og fari þá að sinna venjulegum skepnum.

Þá er bent á að Lilja Alfreðsdóttir hafi fengið tímabundið leyfi frá starfi sínu í Seðlabanka Íslands og þurfi brátt að ákveða vort hún snúi til baka þangað. Vill hún fórna góðu embætti fyrir að sitja á Alþingi sem óbreyttur og valdalaus þingmaður í stjórnarandstöðu? Það mun skýrast.

Hverfi þau tvö af vettvangi, gæti leið Sigmundar til baka í formannsstól Framsóknar orðið greiðfær.

Forystumál flokksins gætu tekið óvænta stefnu.