Hvað með það?

Árni Páll Árnason fyrrum formaður Samfylkingarinnar hefur skýrt hjásetu þriggja stjórnarandstöðuflokka í atkvæðagreiðslu um breytingar á Búvörulögum.  Hann segir að ef þeir hefðu greitt atkvæði eins og Björt framtíð hefði forseti einfaldlega frestað atkvæðagreiðslu.
Það mun vera rétt hjá Árna Páli að ýmis dæmi munu vera um það að þingforsetar hafi frestað atkvæðagreiðslum ef þeim hefur litist svo á að tvísýnt væri um úrslit vegna lélegrar mætingar. Þær fara þá fram síðar þegar stjórnarþingmenn geta mætt. 
En spurningin sem hann svarar ekki er þessi: En hvað með það? Hefði það ekki einmitt sýnt meiriháttar vanmátt stjórnarinnar að þurfa að fresta atkvæðagreiðslu um slíkt hjartans mál? 
Hvers vegna mátti ekki leyfa þingflokksformönnum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að smala sínum þingmönnum saman til nýrrar atkvæðagreiðslu? Hvers vegna mátti það ekki sjást að þeir stjórnarþingmenn sem talað hafa gegn frumvarpinu yrðu að greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu? 
 Dagfari fullyrðir að þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem stjórnarandstöðuflokkar sitja hjá við atkvæðagreiðslu til þess eins að bjarga ríkisstjórn frá vandræðum.  Og full ástæða er til að efast um að þeir kjósendur sem greiddu Samfylkingunni atkvæði  fyrir þremur árum hafi gert það til þess að upplifa snoturt hjartalag af þessu tagi þótt þeir almennt séu frekar góðhjarta.