Hungursneyðarkomplexinn


Skömmu eftir hrunið 2008 ákvað ég að blanda mér opinberlega í samfélagsumræðuna. Láta ekki lengur duga að stimpla bara inn og út fréttir, flestar óumdeildar.

Ég ákvað að taka afstöðu í samfélagsmálum, ylja mér við þann draum að nú væri tækifæri til að breyta samfélaginu til hins betra og að þar þyrftu allir að leggja fram til umræðunnar. Einu gilti hvaða störfum við gegndum eða hvaða afleiðingar gætu orðið af gagnrýni okkar til skamms tíma. Um síðir myndi allt verða betra með því að við legðum okkur opinberlega fram við að bæta samfélagið þótt það gæti kostað þrumur og eldingar í nokkra daga.


Haldið hefur verið fram að hver og einn landsmaður sem sinnir sama starfi í 5000 klukkustundir eða meira verði sérfræðingur í sínu fagi, að því gefnu að hann ráði við djobbið! Í þessu efni liggur fyrir að mitt sérsvið er blaðamennska. Ég hef unnið sem verkamaður, tólnlistarmaður og þjónn, starfað á hóteli og gert eitt og annað en eitt starf hefur orðið ofan á. Árið 1984 hóf ég fyrst störf við fjölmiðla og hef allar götur frá 1992 haft lifibrauð af blaða- og fréttamennsku með stuttum hléum. Ég kenni vinnubrögð blaðamennsku á háskólastigi, ég hef skrifað bók um blaðamennsku og í seinni tíð hef ég tjáð mig töluvert um blaðamennsku hér á landi og þá einkum meinin sem þrífast innan hennar, enda þarf ekki að ræða það sem vel er gert. Gagnrýnin blaðamennska er samfélaginu mikilvægari en ógagnrýnin blaðamennska þegar haft er í huga að fjölmiðlar eru kallaðir fjórða valdið. Blaðamönnum ber að veita löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi aðhald. Með sama hætti hlýtur gagnrýnin umræða um blaðamennsku að gera meira gagn ef hún er marktæk heldur en lofrulla um blaðamennsku. Eða þannig skil ég samhengi hlutanna.


Ég fór að finna fyrir gremju hjá kollegum, öðrum blaða -og fréttamönnum frá og með fyrsta deginum sem ég hóf opinberlega samfélagsgagnrýni. Gagnrýndi þá ekki síst minn eigin þátt og annarra kollega í andvaraleysinu fyrir hrun. Í Mannorðsmorðingjum tek ég sem blaða- og fréttamaður fulla ábyrgð á því að hafa ekki starfað sjálfstæðar en raun bar vitni fyrir hrun.  Um þettta andvaraleysi mitt og kollega minna fjallar langur kafli í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

En að ég, einhver miðaldra sveitablaðamennskukarl fyrir norðan, skyldi voga mér að setja fram endurtekna gagnrýni á ráðandi meginstraumsfjölmiðlun hér á landi féll í afar misjafnan jarðveg meðal flestra annarra kollega. Nokkrir tóku reyndar undir en mun fleiri fordæmdu. Með liti til sérfræðikenningarinnar um 5000 klukkutímana telst ég þó ekki sérfróður í neinu öðru en blaðamennsku og get ekki fært eins málefnaleg rök fyrir gagnrýni á aðra þætti samfélagsins. Þess vegna kom á óvart hve margir kollegar brugðust við gagnrýninni af mikilli neikvæðni og efuðu umboð mitt til að tala og skrifa eins og ég gerði. Þeir vörðu sig og sína. Réttlættu flesta hluti og kenndu öllu öðru um en þeirra eigin ábyrgð á að matreiða þann veruleika sem við okkur blasir frá degi til dags til að almenningur fái sem bestar upplýsingar. Þeir töldu jafnvel stórvarasamt að \"grafa undan\" blaðamennskunni hér á landi með því að ræða það sem betur mætti fara. Ég komst að því að sumum kollegum innan blaðamannastéttar þótti sem ég hlyti annað hvort að vera undirförull eða þá beturvitrungur um íslenska fjölmiðla sem þótti hlægilegt af því að ég var ekki starfandi þar sem fólkið er flest, í kraumandi deiglu höfuðborgarinnar.

Mér var sagt að ég hefði stungið kollega í bakið þótt sjaldnast nafngreindi ég nokkurn mann með neikvæðum hætti, umræðan er kerfismál en ekki persónumál. Frá og með fyrstu gagnrýnu færslunum á fjölmiðla sem ég leyfði mér að birta á facebook, frá og með pistlum sem ég fór að birta á vefnum, greinum í dagblöðum og síðar í ljósvakaviðtölum sem og í leiðurum hjá Akureyri vikublaði síðar, skapaðist þykkja milli mín sem blaðamanns og margra ráðandi blaðamanna. Kannski má segja að ég hafi í kjölfarið farið að upplifa mig sem ljóta andarungann innan stéttarinnar, án þessa að eygja von um að verða nokkru sinni svanur!


Eitt fór sérstaklega í taugarnar á sumum kollegum mínum sem varið hafa eigin meistaraverk með ráðum og dáðum, það var sá hluti gagnrýninnar sem sneri sjónarhorninu burt frá okkur blaðamönnum og til almennings, réttar almennings á að fá óbjagaðar upplýsingar sem ekki hefðu verið stimplaðar af valdhöfum. Nú er það þannig að blaðamaður hefur aðeins eina skyldu, aðeins einn trúnað öðrum æðri og það er trúnaðurinn við almannahagsmuni. En samt fór það illa í marga þegar innan úr röðum blaðamanna sjálfra komu fram spurningar sem vefengdu að blaðamennskan væri keyrð áfram af hagsmunum almennings eða hvort hún léti stjórnast af hagsmunum eigenda fjölmiðlanna og ótta blaða- og fréttamanna við að missa lifibrauðið. Með sama hætti og Jóhanna Sigurðardóttir lækkaði eigin laun á erfiðum tíma þegar Ísland var staurblankt var því skrefi ekki tekið fagnandi hjá andstæðingum hennar. Jóhanna var sökuð um hræsni, því það var talið óhugsandi að stjórnmálamaður hefi ákveðið að gera eitthvað af óeigingjörnum hvötum.

Ég rakst á svipaða hluti þegar ég fór að leggja undir með afskiptum og umræðu um blaðamennsku. Það hlaut að búa eitthvað að baki, ekki væri séns í helvíti að nokkur blaðamaður risi upp og færi að gagnrýna þá stétt sem hann væri sjálfur hluti af nema að hafa sérstakt erindi í hyggju, dulda persónu- eða peningahagsmuni. Þannig er nú komið fyrir okkur sem þjóð.

Ég gjörþekki ekki fræði endurskoðunar og ég hef ekki hundsvit á verkfræði. En ég er sem blaðamaður á löngum tíma búinn að heyra nógu margar raddir til að vita að endurskoðandinn sem steig fram og gagnrýndi endurskoðendur eftir hrun varð enginn aufúsugestur hjá endurskoðendaskrifstofum þegar Ísland fór aftur að lyftast. Sömu sögu hef ég heyrt úr ranni verkfræðinga. Þeir sem gagnrýna virkjanaæðið hafa mátt þola að vera hraktir frá kjötkötlunum vegna gagnrýni sinnar. Gagnrýni á að kosta! Og þess vegna trúa allt of margir því að sá sem gagnrýnir hljóti að hafa duldan hag af gagnrýni sinni. Annað hvort sé hann í persónuárás, þiggi fé undir borðið eða slái sjálfan sig til riddara.

Þetta hefur maður t.d. lesið í facebookumræðu hægri manna um Illuga Jökulsson sem hefur verið iðinn við mótmæli á Austurvelli undanfarið. Þeir kalla hann ónefnum, ófrægja hann, stimpla hann, lesa ekki orðin hans heldur dæma hann út frá því að hann sé þekktur fyrir vinstridekur. Ég hef aldrei hitt Illuga Jökulsson en þegar ég sá hann í sjónvarpinu á mótmælafundi birtist mér mikil tilfinninga- og ástríðuvera. Það eru ástríðuverurnar sem gera gert samfélögum svo mikið gagn. Ástríðuverum er ekki sama þegar þær telja að óréttur hafi verið framinn. Þess vegna aðhafast þær. Stundum ganga ástríðuverurnar svo nærri sér í hugsjóninni að bæta samfélagið að þeir brenna upp, fórna sér. En að ræða mennskuna, ástríður og tilfinningar hefur aldrei verið í tísku hér á landi. Orðið réttlætiskennd er tabú! Illugi hlýtur bara að vera á mála fyrir Samfó, VG eða Pírata! En er það nú líklegt þegar sami Illugi hefur lífsviðurværi sitt af bókaskrifum, þýðingum, fjölmiðlavinnu og öðru sem augljóslega gæfti gefið meira af í aðra hönd fyrur Illuga ef hann væri óumdeildur maður.

Sömu umræðu mátti ég þola þegar ég fór að gagnrýna meginstraumsblaðamennsku hér á landi. Maður veit að maður hefur náð í gegn þegar Hannes Hólmsteinn er farinn að skrifa illa um mann. En maður veit líka að maður er á sama tíma kominn út á ákveðinn kant.
Að við lítum á sjálf okkur sem ekkert annað en holar skelar græðgi og ómennsku sýnir að nýfrjálshyggjan er enn að leika okkur grátt þótt umræðan um skatta og skattaskjól bendi til að hér sé aftur að verða til vísir að heilbrigðri hópsamvisku þjóðarinnar.

En það gæti verið til önnur skýring á þessu öllu, söguleg. Skýringin á tregðu landsmanna til að meðtaka gagnrýni gæti tengst því sem ég ætla að leyfa mér að kalla íslenska hungursneyðarkomplexinn. Óréttlætissaga Íslendinga allt frá söguöld er slík að við höfum lært að ef einn rís upp gegn hinum ráðandi verður mörgum \"saklausum\" refsað fyrir í leiðinni. Þess vegna stökkva jafnvel þeir sem hafa langtímahagsmuni af því að starfa við betri skilyrði á þann sem gagnrýnir gallað umhverfi; reyna að tækla hann, snúa hann niður, rífa hann á hol ef ekki vill betur til - áður en höfðingjarnir heyra.
Íslandssagan er harður húsbóndi. Kúgun er okkur í blóð borin en það er ekki okkur að kenna heldur vondum valdhöfum í tímans rás. Það er ekki svo langt síðan  landsmenn áttu allt undir geðþótta vondra valdhafa eða góðu veðri. Við lifrðum ekki næsta dag nema í sátt við umhverfi okkur. Eftir því sem áhrifin færðust meira frá veðraþáttum yfir á herðar valdamikilla einstaklinga biðja flestir enn um gott veður hjá þeim sem ráða mestu.

Þess vegna jaðarsetjum við ennþá gagnrýnendur. Af því að við erum hrædd um að verða svöng. Reynslan hefur sýnt okkur að undirgefnin gæti tryggt okkur fleiri ævidaga.

En hvaða gildi hefur líf án frelsis?

Höldum áfram að rífa kjaft, gerum það óhrædd en málefnalega.

Björn Þorláksson