Góður þjónn reddar ónýtu eldhúsi

 

Einu sinni hringdi Óðinn Jónsson í mig og falaðist eftir því að ég ræddi fréttir vikunnar í morgunþætti sem hann hafði umsjón með í Ríkisútvarpinu.

Ég átti að fara í loftið minnir mig rétt upp úr átta á föstudagsmorgni, mætti vel tímanlega til að fara í stúdíóið hér norður á Akureyri, en kom þá að læstum dyrum.

Tæknimaður hafði sofið yfir sig og enginn annar við störf svo snemma dags. Ég reyndi að redda málunum sjálfur, hafandi áður unnið hjá Rúv árum saman. Hringdi í gamla yfirmenn og reyndi að fá úr því skorið hvernig leysa mætti málið. Römm er sú taug er rekka dregur, mér þykir vænt um alla mína fyrri vinnustaði, vil þeim allt það besta og svo hef ég óskaplega gaman að því að tala!

Þar sem ég norpaði úti í kuldanum í 15 stiga frosti með símann minn á lofti, hringjandi út og suður, varð loks árangur. Nývaknaður tæknimaður kom nokkru síðar hlaupandi utan úr sortanum, við rukum inn, það var ýtt á takka og norðlensk fréttarödd fór í loftið, Grímseyjarmálið sem þá var sjóðheitt. Náði að koma inn í síðustu fimm mínútur hins fyrirhugaða 15 mínútna fréttaviðtals. Vitaskuld baðst Óðinn, réttsýnn séntilmaður sem hann er, afsökunar á klúðrinu sem og tæknimaðurinn, þetta reddaðist í einhverri mynd og málið dautt.

En þó ekki alveg.

Nokkru síðar var ég staddur á mannamóti og sagði þá þessa sögu. Það er ekki leyndarmál að ég taldi það afleitt að hjá almannaútvarpinu  svæfi starfsfólk yfir sig á morgnana með þeim afleiðingum að gestir kæmust ekki í viðtal og fyrirhuguð dagskrá færi úr skorðum. Þegar ég hafði sagt þessa sögu brast á með orrahríð, þar sem stór hópur hlustenda í kringum mig sagði slíkan málflutning ósanngjarnan. Hva? Þetta væru nú bara smámistök. Eitthvað sem gæti komið fyrir alla. Ég neitaði að svona gæti komið fyrir alla. Hélt því fram að sumir mættu aldrei of seint og að dyggðir þeirra sem væru alltaf ábyrgir og pössuðu sig á að vakna á réttum tíma, hefðu fyrir lífinu, umfram hina, væru í raun útvatnaðar með því að halda fram að þeir væru ekki betri starfsmenn en hinir. Tek fram að ég er ekki sjálfur dæmi um fullkominn starfsmann en þegar ég kúka upp á bak reyni ég að jafnaði að sýna þeim sem það bitnar á að mér sé ekki sama.

Einu sinni sótti ég fyrirlestur snemma morguns í háskólastofnun. Kvöldið áður skall blindbylur á, mikil ofankoma. Þetta var mikilvægur fyrirlestur og ég sá það með fyrirhyggju sveitamannsins að ég yrði að vakna 15 mínútum fyrr en vanalega til að skafa snjó af bílnum og undirbúa ökuferðina á fyrirlesturinn. Það gekk eftir. Með ábyrgð, forvörnum og framsýni tókst gamla að mæta á réttum tíma á fyrirlesturinn, meginþorri nemenda var mér samstíga. Ábyrgur nemendahópur og fróðleiksfús. En kennarann vantaði. Við þuftum að bíða eftir honum í 20 mínútur og styttist fyrirlestur hans sem því nam, höggvið var skarð í þá auðlind sem fróðsleiksfúsir nemendur sjá í góðum fyrirlestri. Kennarinn baðst stuttlega afsökunar og horfði ekki framan í nemendahópinn á meðan. „Sorrý, það var bara svo mikill snjór, það tók langan tíma að skafa.“

 Ótæk afsökunarbeiðni.

Ég hef velt fyrir mér orðræðu sem gengur eins og rauður þráður hér um þjóðarsálina í kjölfar mistaka. Annað hvort er sá sem gerir mistök talinn óalandi og óferjandi fífl, á helst ekki skilið að halda höfðinu. Eða þá að í kringum hann safnast einhver meðvirknikór sem snýr ábyrgð þolenda og gerenda á haus.

Sannarlega er það svo, að það að gera mistök er að vera maður. En eitt er að geta mistök og annað er hvernig við bregðumst við þeim, hvernig við öxlum ábyrgð.

Dæmi eru um í að bissnessmenn hendi sér fram af húsþökum ef þeir veðja á ranga hesta í hlutabréfum. Skammast sín of mikið fyrir hönd eigin fyrirtækis eða fjölskyldu til að geta horft í augun á fólki sem hefur treyst þeim. Álíta að þeir hafi brugðist í eitt skipti fyrir öll. Það eru öfgar í hina áttina. Öfgar sem leysa engan vanda heldur búa til nýjan vanda og stórfelldari.  Með sama hætti og full ástæða er til að vara við svo drastískri birtingarmynd þeirra sem vilja axla ábyrgð, mætti kannski ræða að það er ekki heldur gott að axla enga ábyrgð í kjölfar mistaka. Verst er ef við venjumst þeirri hugsun að það sé eitthvað að þeim sem krefjast ábyrgðar.

Það er til lítils að ræða hópinn sem krefst afsagnar og helst höfuðleðra allra sem verður eitthvað á, sá hópur er hreinlega of reiður til að hægt sé að ræða við hann. En samtrygging þeirra, oft yfirmanna, sem sjá sér hag í að tóna alltaf niður öll mistök, kannski vegna þess að þeir vilja að það verði tekið mjúklega á þeim sjálfum næst þegar þeim verður á, hún er, leyfi ég mér að fullyrða, hreinlega þjóðarmein hér á landi.

Ef tveir starfa saman alla daga og annar gerir fá mistök en hinn gerir mörg mistök (sem rekja má til kæruleysis) er eðlilegt að sá sem gerir færri mistökin fái að njóta þess – en ekki öfugt. Að sama skapi er eðlilegt að sá sem gerir ítrekað mistök, þurfi að axla ábyrgð. Það á við bæði um einstaklinga, vinnustaði og stofnanir. Þar hafa hið opinbera vitaskuld mestar skyldur – og líka meiri réttindi svo það sé sagt. Þess vegna er rétt að krefja opinbera starfsmenn um meiri ábyrgð en aðra. Þess vegna segi ég Rúv-söguna. Þess vegna er værukæri prófessorinn til umræðu.

Í hvert skipti sem einhver gerir mistök ber hinum sama að biðja þann afsökunar sem goldið hefur fyrir.  Það er frekar einfalt hugmyndafræðilega og í raun sjálfsagt, en reynist furðu erfitt í framkvæmd hér á Fróni. Kannski vegna þess að við þykjumst stundum betri en við erum.  Maður með gott sjálfstraust kannast við mistök sín, hann gerir eitthvað til að bæta fyrir þau, góður maður hefur líka metnað til að fækka þeim fremur en að fjölga þeim eða vera sama um dagana, hvort sem þeir eru markaðir mistökum eða ekki. Hrokafullur maður sem neitar að gangast við mistökum sínum er iðulega óttasleginn maður. Hrokinn er kannski gríma, yfirvarp veikrar sjálfsmyndar? Verður nú varpað fram þeirri tilgátu hvort hroki sem gegnumsýrir sum einkafyrirtæki og stofnanir hér á landi kunni að eiga upptök í því, að starfsmannahópar búi ekki yfir nægilegu sjálfstrausti? Maður með gott sjálftraust á sjaldnast erfitt með að biðjast velvirðingar eða gera eitthvað til að sýna þeim sem brotið var á, að viðkomandi sé ekki sama. Sá hinn sami eða umhverfi hans getur vaxið af viðbrögðum í kjölfar mistaka. Dæmi er kvöldstund á veitingastað þar sem eldhúsið springur vegna álags. Margir kunna sögur af því að frábær þjónn hafi bjargað svoleiðis kvöldi með réttmætum uppbótum, flottri framkomu og orðum sem hitta í hjartastað á hvarfgjarnri stundu, orðum og uppbótum sem verða til þess að maður fer glaður út í nóttina og mælir með veitingastaðnum við vini þótt í maganum velkist um vondur matur.

Það er kannski eitthvað til að velta fyrir sér um helgina.

Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)