Hreinsanir í stjórn vr og stríð við así

Ragnar Þór Ingólfsson var kjörinn formaður stærsta launþegafélags landsins, VR, á útmánuðum með atkvæðum 10 prósenta félagsmanna. Í farangrinum hafði hann stórkarlalegar yfirlýsingar um að forysta Alþýðusambandsins væri vond, sérstaklega forsetinn Gylfi Arnbjörnsson, og að lífeyrissjóðir landsmanna kostuðu of mikið í rekstri. Með þetta veganesti settist hann í stól formanns VR, áður öflugasta launþegafélags landsins.


Nú biðu menn eftir því að hinn mikli leiðtogi sýndi hvers hann væri megnugur í kjarabaráttu félagsmanna og viti menn! Hann hefur spilað út sínu stóra baráttumáli fyrir komandi vetur! Það gerði hann á Facebook-síðu sinni rétt fyrir mánaðamótin, þá birti hann þennan boðskap:


\"Það hefur legið fyrir frá því ég náði kjöri sem formaður VR að ákveðið uppgjör mun fara fram í næstu stjórnarkosningu VR í mars á næsta ári. Þar verður helmingur stjórnarmanna VR kosinn í alsherjar kosningu og munu helstu stuðningsmenn forseta ASÍ innan stjórnar VR fara fyrir dóm félagsmanna. Kosningin mun væntanlega skera úr um framtíð VR innan ASÍ þar sem hinn almenni félagsmaður mun í fyrsta sinn geta kosið um það hvort VR sé best borgið undir núverandi forystu ASÍ eða ekki. Nýleg skýrsla ASÍ um skattbyrði lægstu tekjuhópa ætti að gefa tilefni til að skipta út nokkrum risaeðlum innan verkalýðshreyfingarinnar úr öðrum félögum.\"

 

Þessi yfirlýsing hans er svar við yfirlýsingu frá miðstjórn ASÍ um „órökrétt viðbrögð formanns VR við skýrslu ASÍ um skattamál“ og birtir hann tengil á yfirlýsingu miðstjórnarinnar.

 

Í yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ segir m.a.: „Í stöðuuppfærslu á Facebook nýverið fullyrðir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að Alþýðusambandið beri höfuðábyrgð á því að skattbyrði lágtekjufólks hafi hækkað á undanförnum árum og áratugum. Miðstjórn ASÍ lýsir furðu sinni yfir þessari yfirlýsingu formanns VR við niðurstöðum rannsóknar hagdeildar ASÍ um þróun skattbyrði og vísar þessum ásökunum algerlega á bug.“
Og svo: „Það er langsótt og fullkomlega órökrétt að gera ASÍ ábyrgt fyrir aukinni skattbyrði lágtekjufólks. Þessi ábyrgð hvílir eingöngu hjá ríkisstjórn og Alþingi – og bera flestir stjórnmálaflokkar sameiginlega ábyrgð á þessari stöðu mála.“

 

Undir þessa yfirlýsingu ritar 15 manna miðstjórn ASÍ, en fimmtung hennar skipa einmitt fulltrúar VR! Í miðstjórn ASÍ sitja þessir stjórnarmenn í VR: Ingibjörg Ósk Birgisdóttir 2. varaforseti ASÍ, Benóný Valur Jakobsson og Bjarni Þór Sigurðsson.


Væntanlega vísar Ragnar Þór formaður til þessara stjórnarmanna og jafnvel fleiri þegar hann segir „helstu stuðningsmenn forseta ASÍ innan stjórnar VR fara fyrir dóm félagsmanna.“


Skilaboðin geta varla verið skýrari. Formaðurinn sendir þá orðsendingu til stuðningsmanna sinna að fella þetta fólk úr stjórninni. Hann hefur ekki einu sinni fyrir því að reyna að dulbúa skilaboðin. Um leið gefur hann í skyn að hann vilji kljúfa VR út úr ASÍ.


Nú þurfa hinir almennu VR félagar að hugsa sig um. Er þetta sá leiðtogaboðskapur sem þeir vilja fylgja? Þeir hirtu ekki um að kjósa í formannskjörinu, ætla þeir líka að sofa þetta af sér?
       
rtá