Hræðslubandalag pírata er andvana fætt

Dagfari telur að útspil Pírata um fyrirfram myndun ríkisstjórnar sé andvana fætt. Það hljóta allir að sjá, einnig Píratar. Með þessu gera þeir örvæntingarfulla tilraun til að koma sér inn í umræðuna fyrir eitthvað annað en síminnkandi fylgi samkvæmt skoðanakönnunum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að hugmyndin sé allt of seint fram komin en ætlar þó að eiga fund með formannaþríeyki Pírata.

Formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar vilja fá umboð og dóm kjósenda áður en til stjórnarmyndunar kemur. Þar með er hugmynd Pírata um hræðslubandalag sópað út af borðinu enda var hún aldrei annað en ódýr auglýsingabrella.

Árið 1994 vann R-listinn í Reykjavík borgina úr höndum Sjálfstæðisflokksins. Framboðið var sambræðingur vinstri flokkanna og hafði verið í faglegum og vönduðum undirbúningi í 2 ár. Ekki í 2 vikur eins og hér er boðið upp á.

Allar aðrar hugmyndir og tilraunir til hræðslubandalaga eins og Píratar lögðu til hafa farið út um þúfur og að engu orðið á Íslandi síðustu áratugina.

Sama verður uppi á teningnum nú.
Dagfari telur að Píratar munu halda áfram að minnka fram að kosningum, enda í 13% fylgi og ná 9 mönnum á þing. Það er samt góður árangur hjá þeim.