Hjónin Birgir og Sig­rún urðu óvænt rokkstjörnur á samfélagsmiðlum: „Ég hef gert þetta í svona sex eða sjö ár“

Birgir Helga­­son og Sig­rún Guð­­munds­dóttir eru orðin að rokk­­stjörnum á sam­­fé­lags­­miðlum en þau gefa fuglum að éta á hverjum einasta degi. Birgir kallar á smá­­fuglana með bíl­flauti og hvetur alla til að gæta að smá­­fuglunum.

Frétta­blaðið tók við­tal við Birgi um þennan nýjan raun­veru­leika þeirra hjóna.

„Ég var bara úti í búð að kaupa brauð,“ segir Birgir Helga­­son léttur í bragði þegar Frétta­blaðið nær af honum tali. Hann er dug­­legur að birta myndir af því í Face­­book-hópnum Fugla­­fóðrun þegar hann gefur hinum ýmsu fuglum að éta skammt frá heimili sínu í Hvera­­gerði.

„Eins og til dæmis í dag, þegar hefur rignt í gær og alla nótt, þá varla borgar sig að standa í því að gefa. En ég geri það nú samt því það er allt gadd­freðið þarna úti þar sem ég gef þeim,“ segir Birgir sem hefur á­­samt eigin­­konu sinni, Sig­rúnu Guð­­munds­dóttur, gefið á hverjum einasta degi undan­farin ár.

„Ég hef gert þetta í svona sex eða sjö ár og þetta byrjar í desember og stendur alveg fram í mars, þó að það fari auð­vitað eftir snjóa­lögum,“ segir Birgir.

Hann segir þetta hafa verið afar mikil­­vægt þennan sér­­­lega harða vetur. „Undan­farnar fimm, sex vikur hafa verið snjóa­lög yfir öllu og ég er auð­vitað austur í Hvera­­gerði og það er hérna heil­­mikið ó­­byggt land­­svæði þegar maður kemur niður Kambana, á vinstri hönd áður en maður kemur inn af hring­­torginu. Þar er stórt svæði þar sem ég hef getað gefið þeim.“

Birgir hefur gefið fuglunum á sama stað öll þessi ár á hverjum einasta degi. „Og ég byrjaði fyrir nokkrum árum síðan að flauta tvisvar, svona bíb-bíb, þegar ég var að koma inn á stæðið og þá bara kom allur mökkurinn.“

Bíllinn bilaði hjá Birgi á dögunum og þá gat hann ekki flautað. „Ég fór fót­­gangandi og lenti þá í vand­ræðum með það hvað ég ætti að gera til að láta þá vita, þannig að ég prófaði bara að berja í botninn á þessari tíu lítra fötu sem ég fer með alltaf og heyrðu, það bara fylltist loftið af fuglum.“

Birgir segir að á venju­­legum degi komi þrestir, snjó­­titt­lingar og starar. „Þeir koma á hverjum degi. Svo þar fyrir utan fæ ég gæsir, auðnu­­titt­linga, krumma og dúfur, þannig að ég er með sjö tegundir af fuglum en ekki allt saman í einu, gæsirnar komu hérna um daginn og voru í tvær vikur en svo hef ég ekkert séð þær meira.“

Þá hefur krumminn verið dug­legur að heim­sækja Birgi og Sig­rúnu. „En nú er hann að ná sér í kærustu og má ekkert vera að því að borða. Maður sér munstur í þessu öllu saman eftir öll þessi ár.“

Birgir hefur verið dug­legur að deila myndum af fuglunum inni á Face­book-hópnum Fugla­fóðrun. Þær hafa slegið í gegn en það er eigin­kona hans Sig­rún sem út­býr fóðrið. „Það er gaman að geta deilt þessu og fólk er að deila upp­lýsingum um hvaða korn á að kaupa og svona, og þegar maður gerir þetta á hverjum degi eins og ég getur verið smá kostnaður við þetta og maður þarf að velja réttu verðin.“

Hægt er að lesa við­tal Frétta­blaðsins í heild sinni hér.