Hin mörgu andlit vilhjálms bjarnasonar

 Hvaða Vilhjálmur er nú á ferðinni?
 
Vilhjálmur Bjarnason birti langa grein í Morgunblaðinu sl. föstudag. Greinin er svo ruglingsleg að það þurfti nokkrar atlögur að henni til að ljúka lestri hennar.
 
Það vekur athygli hve æstur og dónalegur þingmaðurinn er. Hann leyfir sér ítrekað að halda því fram að íslenska bankakerfið hafi verið \"glæpavætt\". Er orðalag af þessu tagi ekki fyrir neðan virðingu þingmanns? Eða eru allir búnir að gefa skít í virðingu Alþingis, líka sjálfir þingmennirnir? Engin furða þó traust til Alþingis mælist varla í könnunum.
 
Erfitt er að átta sig á því hvað vaðall Vilhjálms á að sýna fram á. Í hvaða erindum er hann? Á hvers vegum sendir hann frá sér órökstuddan skæting á nærri heilsíðu í blaðinu? Það skiptir máli úr hvaða átt Vilhjálmur kemur núna því hann hefur borið og ber enn marga hatta.
 
Ástæða er til að spyrja:
 
Talar þessi Vilhjálmur þarna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins?
 
Eða er þetta sá gamli Vilhjálmur sem var stundakennari í háskóla en tók að sér snatt eins og að leppa kaup á eignarhlutum í Brunabótafélagi Íslands þegar einhverjir þurftu að sigla undir fölsku flaggi?
 
Eða er þetta sá Vilhjálmur sem þáði milljónir frá fyrirbæri sem kallað er Félag fjárfesta og þyggur skrítin fjárframlög?
 
Eða er þetta sá Vilhjálmur Bjarnason sem vildi verða forstjóri Fjármálaeftirlitsins en var hafnað? Gunnar Andersen var ráðinn og svo rekinn fyrir valdníðslu og embættisafglöp. Gunnar var talinn hæfari en Vilhjálmur.
 
Eða er þetta sá Vilhjálmur sem hefur hamast árum saman og reynt að ýta áfram svonefndu \"Málsóknarfélagi hluthafa Landsbanka Íslands\" við heldur dræmar undirtektir raunverulegra hluthafa bankans?
 
Það skiptir verulegu máli hvaða hatt Vilhjálmur ber núna. Hvað af mörgum andlitum Vilhjálms Bjarnasonar snýr að okkur núna?
 
Í grein sinni veltir hann því fyrir sér hvenær \"glæpavæðing\" bankakerfisins hófst, eins og hann orðar það svo smekklega.
 
Ef Vilhjálmur talar svona sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þá hlýtur formaður flokksins að bíða spenntur eftir úttekt hans á \"glæpavæðingu\" Íslandsbanka þar sem Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, var einn helsti gerandinn, bankaráðsmaður frá stofnun og formaður um tíma skömmu fyrir hrun.
 
Ætli Bjarni Benediktsson vilji bera ábyrgð á stóryrðum þessa þingmanns flokksins?
 
Varla. Og alls ekki ef þau fara að bíta í náin ættmenni.
 
rtá.