Heimssögulegur sigmundur davíð

Enn eru til framsóknarmenn sem eru blindir á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formann Framsóknar og fyrrverandi forsætisráðherra. Þeir virðast ekki muna hvers vegna hann hrökklaðist frá völdum í apríl á þessu ári og hvers vegna kjörtímabilið var stytt um hálft ár. Ætla má að framsóknarmenn af þessu tagi séu ekki margir. En þeir fyrirfinnast. Einn þeirra birti grein í Morgunblaðinu þann 8. nóvember sl. Hann heitir Þorsteinn Ágústsson og titlar sig bónda og framsóknarmann.

 
Þorsteinn botnar ekkert í því hvernig Sigmundur Davíð hefur orðið fyrir barðinu á vonsku heimsins og félaga í Framsóknarflokknum og það algerlega að tilefnislausu. Lítum á nokkur atriði úr grein hans:
 
Þorsteinn heldur því fram að Sigmundur Davíð hafi verið “hrópaður” úr embætti forsætisráðherra. Svo gerir hann lítið úr Sigurði Inga Jóhannssyni, sem varð að taka við forsætisráðherrastarfinu fyrirvaralaust til þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin yrði strax að segja af sér. Sigurður Ingi varð að stíga fram og hreinsa upp skítinn eftir flokksfélaga sinn, Sigmund Davíð. Það er eins og Þorsteinn hafi ekki áttað sig á því hvernig Sigmundur klúðraði ferli sínum algerlega sjálfur og hjálparlaust. Upp komst um vafasama gerninga hans og fjölskyldu hans sem geymdi fúlgur fjár í skattaskjólinu á Tortóla. Það þótti Sigmundi í fínu lagi fyrir sig, þó það væri ólöglegt og alls ekki í lagi fyrir aðra landsmenn. Jón og séra Jón. Með afstöðu sinni sýndi Sigmundur Davíð sitt rétta og siðlausa andlit. Þorsteinn og aðrir verða að muna þetta og horfast í augu við það.
 
Þá víkur Þorsteinn að því hvernig Sigmundur Davíð stýrði kosningabaráttu Framsóknar vorið 2013 og lofaði landsmönnum skuldaniðurfærslu á kostnað “hrægamma”. Loforð Framsóknar hljóðaði upp á að 300 milljörðum yrði varið til skuldaniðurfærslunnar. Út á það vann flokkurinn kosningasigur og með því einnig að lofa afnámi verðtryggingar og vaxtalækkun. Efndir eru þær að niðurfærslan nam 80 milljörðum en ekki 300 milljörðum króna, verðtryggingin er enn á sínum stað og lítið hefur farið fyrir vaxtalækkun. Í uppljóstrunum vegna Panamaskjalanna og Tortólaviðskipta Sigmundar Davíðs og fjölskyldu, kom á daginn að þau hjónin voru sjálf meðal þeirra “hrægamma” sem keyptu kröfur á hendur Íslendingum og höfðu haft góðan arð af þeim viðskiptum.
 
Þorsteinn Ágústsson reiðir hvað hæst til höggs í grein sinni þegar hann segir: “Það hlálega við þetta allt er að Sigmundur Davíð, sem hrópaðar var út af sviðinu, hefur með störfum sínum og stefnu unnið heimssögulegan sigur yfir fjármálaöflunum, enda eru það þau sem standa á bak við allt plottið sem þessi Jóhannes Kristjánsson lét ginna sig til að vinna við og Kastljós tók fegins hendi til birtingar”.
 
Jæja, það er ekkert annað!
 
Alþekkt er að reynt sé að skjóta boðbera válegra tíðinda. Jóhannes vann faglega að rannsóknum sínum og uppljóstrunum sem vakið hafa heimsathygli. Hann og samstarfsmenn hans fóru ekki í manngreinarálit. Ráðherrum var ekki hlíft umfram aðra. Það var engin Jóns og séra Jóns hugsun í gangi. Jafnt gekk yfir alla. Sigmundur Davíð og stuðningsmenn hans geta ekki sætt sig við það að honum skyldi ekki hafa verið hlíft einum manna af þeim sem höfðu stundað vafasöm viðskipti í skattaskjólum og falið auðæfi sín á Tortóla.
 
Uppljóstranir Jóhannesar vöktu heimsathygli. Þegar Sigmundur Davíð hrökklaðist frá völdum á Íslandi vegna misgjörða sinna vakti það heimsathygli. Sigmundur var talinn upp með einræðisherrum og heimsþekktum afbrotamönnum þegar Panamaskjölin voru birt opinberlega.
 
Sigmundur Davíð komst í heimspressuna fyrir misgjörðir sínar og fyrir að hrökklast frá völdum. Þannig varð hann heimsfrægur. Þannig gerði hann eitthvað sem talist getur “heimssögulegt”. Ekkert annað telst “heimssögulegt” varðandi störf og feril Sigmundar Davíðs. Þorsteinn Ágústsson og aðrir framsóknarmenn verða að horfast í augu við þá staðreynd þó það sé vissulega sárt.
 
Stuðningsmenn Sigmundar Davíðs átta sig vonandi á því sem fyrst að ekki er við neinn að sakast annan en Sigmund sjálfan þegar kemur að því að finna sökudólga í máli hans. Engin plott voru í gangi. Ekki gengur að skjóta sendiboðann. 
 
Sigmundur leyndi mikilvægum staðreyndum fyrir flokksmönnum sínum, Alþingi, ríkisstjórninni og þjóðinni allri. Hann hélt að hann kæmist upp með misgjörðir sínar í skattaskjólum en var svo óheppinn að upp komst um strákinn Tuma. Því fór sem fór.