Heimsmet í hógværð

Við elskum aðdáun heimsins. Við elskum hól sem kemur að utan. Elskum efstastigsumræðu, elskum „heimsmetin okkar“, höfum jafnvel að dægrastyttingu að búa þau til.

Prófessor í mannfræði, Kristín Loftsdóttir, greindi kleinuhringjaæðið á dögunum.  Allt í einu hugsaði hálf þjóðin vart um annað en kleinuhringi, fæstir vissu af hverju, en það var vegna þess að kleinuhringirnir komu að utan, benti mannfræðiprófessorinn á. Íslendingar yrðu þakklátir þegar einhver úti í heimi sæi sér hag í að ekki bara heimsækja okkur heldur setja líka upp starfsemi  í okkar einangraða norðri. Gilti einu þótt gróðahyggja væri ástæðan, gilti einu þótt lýðheilsufrömuðir rifu hár sitt og tættu. Með þessa kenningu í huga mætti sérstaklega skoða dekrið sem ráðandi stjórnvöld hafa sýnt erlendum auðhringum í því sem hefur verið kallað skaðleg stóriðjustefna.

Hvergi verður spegillinn við útlönd skýrari en þegar kemur að íþróttum og umfjöllun um þær. Við förum í fýlu ef einhver gagnrýnir íslenskan leikmann í erlendum fjölmiðli. En ef einhver blaðamaður utan landsteinanna hrósar okkur með frygðaryrðinu „heimsmet!“ skelfur hin íslenska þjóð af unaðsbríma.

\"Hógværasti þjálfari heims\" sagði í fyrirsögn á Rúv. Það er sem sagt  hægt að setja heimsmet í sjálfri hógværðinni og auðvitað erum við með þennan ágæta heimsmetshafa, hinn sænska Lars, á okkar launaskrá. „Eru Íslendingar mesta hópíþróttaþjóð í heimi?“ var önnur fyrirsögn sem okkur líkaði mjög.

Burtséð frá kaldhæðni er full ástæða fyrir Ísland að leyfa sér með fölskvalausri gleði að njóta unninna íþróttaafreka. Við erum sannarlega fámennasta ríki sem hefur komið karlalandsliði á lokamót EM í fótbolta, þrisvar áður hafa þó fótboltastelpurnar okkar unnið sama afrek en vakti mun minni athygli. Þannig virkar  kynjakerfið enn. Jafnrétti er langt í frá náð. Samt hafa verið skrifaðar fréttir um heimsmet í jafnrétti hér á landi.

Helst að vofur fortíðar andi í þessu íþróttafári nokkrum þjóðfélagslegum spurningum niður í hálsmálið hjá okkur, brenndu börnunum, sem ætlað var eftir efnahagslegt og samfélagslegt hrun að sækja kennslustundir í skaðsemi oflæti og hroka. Heimsmetafixið er lífseig skepna. Önnur skepna er hugtakið exceptionalism þegar samfélög telja sér trú um að þau séu svo spes að ekki skuli gilda almennar reglur eða lögmál um þann hóp.

„You aint seen nothing yet,“ sagði forseti Íslands í frægri ræðu í Lundúnum þar sem hann kynti undir útrásinni.

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, sagði Steinn Steinarr.