Heiðar segir þrennt trufla við afsökunarbeiðni Samherja

Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV, segir að með afsökunarbeiðni Samherja, sem barst um helgina, kveði við nýjan tón úr þeirri áttinni. Í færslu á Facebook-síðu sinni fer hann þó yfir nokkur atriði sem trufla hann við fyrrgreinda afsökunarbeiðni.

„Í fyrsta lagi er ekki mjög skýrt hver er að biðjast afsökunar. Það er enginn skrifaður fyrir þessari afsökunarbeiðni - einungis sagt að Samherji vilji biðjast afsökunar á framgöngu ótilgreindra stjórnenda fyrirtækisins. Hvers vegna eru það ekki stjórnendurnir sjálfir sem biðjast afsökunar á framgöngu sinni,“ spyr Heiðar sem heldur áfram:

„Í öðru lagi er ekki mjög skýrt á hverju er beðist afsökunar. Þar segir eingöngu að það sé ljóst að of langt hafi verið gengið í harkalegum viðbrögðum við "neikvæðri umfjöllun" og á þeirri framgöngu vilji fyrirtækið biðjast afsökunar. Hvaða harkalegu viðbrögð er átt við? Eru það myndböndin sem framleidd voru þar sem fréttamenn Kveiks voru meðal annars sakaðir um að falsa skjöl til stuðnings umfjöllun sinni? Eru tilraunir til að hafa af fjölmiðlafólki æruna? Er það "spæjarinn" sem elti Helga Seljan á röndum, sat fyrir honum á kaffihúsi og sendi ógnandi sms? Eru það njósnir um aðra fjölmiðlamenn og listamenn? Er það kannski allt þetta eða eitthvað annað sem ekki hefur komið fram í opinberri umræðu?“

Heiðar nefnir svo að í þriðja lagi sé ekki mjög skýrt hvern er verið að biðja afsökunar þar sem óljóst er á hverju er beðist afsökunar. Veltir hann fyrir sér hvort verið sé að biðja Helga Seljan afsökunar, allan almenning eða kannski bara starfsfólk Samherja.

„Kannski hefði þessi afsökunarbeiðni verið betri ef það væri skýrara hver væri að biðja hvern afsökunar og á hverju. Eins og fram kom í frétt RÚV í kvöld þá vildi forstjóri Samherja ekki veita viðtal til að skýra það. Ekki frekar en hann hefur viljað veita viðtöl til að svara þeim ásökunum sem settar hafa verið fram.“