Húsavík klárað mengunarkvótann?

Heimamenn á Húsavík og náttúruverndarsinna greinir á um aðstæður og ástæður þess að franskt stórfyrirtæki á sviði iðnaðar hefur hætt við áform um iðnaðarverksmiðju á Bakka við Húsavík. Franska fyrirtækið, Saint Gobain, segir að svæðið þoli ekki loftmengunina. Þessar fréttir hafa vakið spurningar um mengunarmál í Helguvík þar sem tvær loftmengandi verksmiðjur munu senn verða teknar í gagnið með skömmu millibili ef áætlanir ganga eftir.

Í frétt Hringbrautar um málið í gær spurði Jóhann Kristjánsson verkfræðingur:

\"Ef franskt iðnfyrirtæki tekur það upp hjá sjálfu sér að hætta við verksmiðju vegna mengunar, hvað með Íslendinga sjálfa?

Af hverju hamast stjórnmálamenn við að draga mengunarvalda til lands sem hingað til hefur þótt vera nokkuð hreint á heimsvísu.

Land með viðkvæm norðurhjara vistkerfi, hreint loft og vatn.

Þetta er í raun alveg furðulegt og sérlega í ljósi þess að nýlega er afstaðin heimsráðstefna um loftslagsmál þar sem lögð var ofuráhersla á að draga úr loftmengun.”

 

Löng barátta og pólitísk

Heimamenn á Húsavík hafa með fulltingi þingmanna og þá ekki síst í héraði barist lengi eftir að orkufrek iðnaðarstarfsemi rísi á Bakka og hafa fengið umdeildar milljarða króna ívilnanir sem falla á íslenskan almenning. Áratuga bið eftir nýtingu lóðarinnar lauk í fyrra þegar PCC hóf framkvæmdir á Bakka vegna kísilmálmverksmiðju. Rætt hefur verið hvernig sú starfsemi passi við vaxandi ferðaþjónustu og mengunarmál en jarðskjálftahætta á svæðinu er einnig nefnd sem neikvæður þáttur.

Karl Ingólfsson umhverfissinni sem vakið hefur athygli fyrir baráttu sína fyrir jarðstrengjum segir á facebook vegna fréttar Hringbrautar um Saint Gobain, að eitt fyrirtæki af þessari gerð geti sloppið við að setja upp lofthreinsibúnað þar sem það gæti náð að vera undir viðmiðunarmörkum. Þegar fyrirtækin séu orðin tvö hvað þá fleiri séu yfirgnæfandi líkur á að mengun fari yfir mörk og þá þurfi þau að koma upp hreinsibúnaði sem geti verið nokkuð dýr. “Svæðið hefur líklega verið kynnt með því fororði að ekki þyrfti að vanda til mengunarvarna,\" segir Karl.

Þessu mótmælir Reinhard Reynisson, fyrrverandi bæjarstjóri á Húsavík, fyrir hönd heimamanna. Hann segir að um sé að ræða sammögnunaráhrif útblásturs frá þessum tveimur verksmiðjum. Þau hefðu farið yfir viðmiðunarmörk nema gripið hefði verið til kostnaðarsamrar hreinsunar útblásturs. Mjög erfitt sé að setja niður á sama svæði margar verksmiðjur með svipaðan útblástur. “Einn af þeim þáttum sem réðu niðurstöðu fyrirtækisins [Saint Gobain] um að reisa verksmiðjuna ekki hér voru einmitt þær kröfur sem hér eru gerðar til umhverfismála og sá kostnaður sem þeim hefði fylgt. Væntanlega mun fyrirtækið reisa verksmiðjuna annars staðar þar sem aðstæður eru með öðrum hætti og kröfur til þessarra mála e.t.v. minni,\" segir Reinhard.

Uppseldur kvóti?

Umhverfissinnar hafa bent Hringbraut á að mengunarkvótinn kunni í raun að vera “uppseldur” á Bakka, ekki síst í ljósi niðurstöðu Parísarfundarins sem letur mjög til loftmengunar. Ef rétt er hefur það mikla þýðingu fyrir framtíðaruppbyggingu húsvíska iðnaðarsvæðisins og áhrif á áætlanir um orkunýtingu á svæðinu. Í viðtali Hringbrautar við bæjarstjórann í Norðurþingi sl. haust, Kristján Þór Magnússon, sagði hann að vonir stæðu til að alls tækist að laða að þrjú eða fleiri iðnaðarfyrirtæki til Bakka. Uppbygging svæðisins og þá ekki síst hafnarinnar væri tengd slíkri von en mikil skuldasöfnun hefur orðið hjá sveitarfélaginu í aðdraganda vinnslunnar. Húsavíkurhöfn er stórskuldug vegna framkvæmda sem hófust um svipað leyti og vonir stóðu til að risaálver myndi rísa á Bakka.

Þegar umhverfismat var gert á PCC verksmiðjunni sem nú er verið að reisa á Bakka sagði í ákvörðun Skipulagsstofnunar: “Í matsskýrslu kemur fram að á iðnaðarsvæðinu á Bakka séu til skoðunar bygging tveggja annarra verksmiðja til framleiðslu á málmi, þ.e. kísilmálmverksmiðja á vegum Thorsil og kísilkarbíðverksmiðja á vegum Saint Gobain. Um sé að ræða fyrirtæki með svipuð hráefni og vinnsluferli og megi búast við að sömu efni séu meginuppistaða losunar í andrúmsloftið, þ.e. brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx) og svifryk (PM10). Rekstur fleiri svipaðra fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu á Bakka skapi hættu á því að við ákveðnar aðstæður safnist mengunarefni fyrir þannig að styrkleiki efna verði yfir umhverfismörkum. Slíkar aðstæður geti eftir atvikum leitt til þess að nauðsynlegt verði að skilgreina þynningarsvæði.”

Vantaði gögn

Einnig segir: “Fram kemur að við vinnslu matsskýrslunnar hafi ekki reynst mögulegt að leggja fram gögn fyrir staðsetningu eða losun frá kísilmálmverksmiðju Thorsil. PCC fékk afhent gögn sem sýndu staðsetningu lóðar og áætlaða losun frá rekstri kísilkarbíðverksmiðju Saint Gobain norðaustur af lóð PCC. Vegna óvissu um staðsetningu verksmiðjunnar innan lóðar hafi ekki verið unnt að leggja áreiðanlegt mat á möguleg samlegðaráhrif. Saint Gobain áætli að árleg losun af brennisteinsdíoxíði (SO2), í andrúmsloftið geti numið milli 1.400 – 1.900 tonnum, sem sé um 1,7 - 2,2 falt meiri losun en áætluð sé frá rekstri PCC skv. 1. og 2. áfanga. Árleg losun svifryks (PM10) frá Saint Gobain sé áætluð um 150 – 200 tonn á ári eða 6,2 – 8,3 sinnum meiri losun en áætluð losun svifryks frá PCC skv. 1. og 2. áfanga. Losun köfnunarefnisoxíða (NOX) frá Saint Gobain sé áætluð minni en 60 tonn, eða um 5% af losun köfnunarefnisoxíða frá rekstri PCC skv. 1. og 2. áfanga. Losun kolmónoxíðs (CO) frá rekstri PCC sé hverfandi lítil og því ekki talin vera hætta á samlegðaráhrifum vegna þeirrar lofttegundar.”

Óvissa var um staðsetningu

Einnig segir:  Megin vindáttir sem leitt geta til samlegðaráhrifa milli verksmiðja PCC og Saint Gobain séu N-NE lægar og S-SV lægar áttir (þar sem norðlægar áttir séu tíðari). Miðað við magn losunar þá sé mest hætta á samlegðaráhrifum vegna losunar brennisteinsdíoxíðs en einnig vegna svifryks vegna frekar sterkrar uppsprettu svifryks frá rekstri Saint Gobain. Ljóst sé að einhver hætta á samlegðaráhrifum sé fyrir hendi vegna losunar efna í andrúmsloftið frá þeim þremur fyrirtækjum sem, eins og sakir standa, hyggja á rekstur á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Sökum óvissu í staðsetningu verksmiðja Saint Gobain og Thorsil og óvissu um losun frá Thorsil sé ekki unnt að framkvæma nákvæma greiningu á áhrifunum. Leggja verði frekara mat á þessi áhrif þegar viðkomandi fyrirtæki séu lengra á veg komin með sinn undirbúning.”

PCC fór ekki rétt með

Í matsskýrslu er greint frá því að verkfræðistofan Verkís hafi gert athugasemdir við umfjöllun um sameiginlegt mat í frummatsskýrslu. Verkís fyrir hönd Saint Gobain sendi Eflu fyrir hönd PCC allar nauðsynlegar upplýsingar um áætlaðan útblástur frá fyrirhugaðri verksmiðju Saint Gobain ásamt hnitsettri útrás. Ekki sé því rétt farið með í frummatsskýrslu PCC, þar sem fram kemur að PCC hafi fengið afhent gögn sem sýni staðsetningu lóðar en óvissa um staðsetningu verksmiðjunnar innan lóðar hamli því að hægt sé að leggja áreiðanlegt mat á samlegðaráhrif. Efla óskaði ekki eftir frekari upplýsingum en þeim sem voru sendar.

Fréttaskýring: Björn Þorláksson.