Hanna birna sækir ekki í frekari átök

„Ég hef sagt að ég muni að óbreyttu gefa kost á mér áfram í stöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir í viðtali við Hringbraut.

Spurð nánar hvað það þýði, svarar Hanna Birna að sú yfirlýsing þýði návæmlega það sem hún segi; að óbreytt staða kalli á óbreytta ákvörðun en hún áskilji sér rétt til að meta hana aftur skapist nýjar aðstæður sem, líkt og hún þekki, geti alltaf gerst í stjórnmálunum.

Skiptar skoðanir eru meðal sjálfstæðismanna um að Hanna Birna sækist \"að óbreyttu\" eftir áframhaldandi embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Mikið vatn hefur til sjávar runnið frá síðasta landsfundi. Þá fékk hún 97% stuðning í varaformanninn og 25% til formanns þótt hún hafi ekki gefið út að hún sæktist eftir formannsstöðunni. Svo kom lekamálið upp. Hanna Birna sagði af sér sem ráðherra.

Viðbúið er samkvæmt heimildum Hringbrautar að Hönnu Birnu bíði nöturleg skilaboð frá a.m.k. hluta almennra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Landsfundi ef hún heldur því til streitu að bjóða sig fram. Eigi að síður skyldi enginn vanmeta bakland hennar, segja aðrar heimildir.

Þingmaður úr röðum Sjálfstæðisflokksins segir að Hanna Birni eigi hreinlega engan séns. \"Embættisverk Hönnu Birnu eru einfaldlega of umdeild til að fólk muni kjósa hana. Margir telja að hún hafi skaðað flokkinn og ekki gert nóg til að bæta skaðann,\" segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Hringbraut.

Þingmaðurinn segir altalað að betra væri að \"kæla\" Hönnu Birnu lengur frá helstu trúnaðarembættum flokksins. Gamlar syndir séu nú dregnar fram í dagsljósið í umræðunni fyrir landsfund og rími illa við kröfu margra um breyttan og betri Sjálfstæðisflokk. Spurð sérstaklega út í kælingarumræðuna segir Hanna Birna að í hennar huga þurfi hún enga frekari ,,pólitíska kælingu\" en hún sé heldur ekki persónulega á þeim stað að sækjast sérstaklega eftir frekari pólitískum átökum eftir það sem á undan er gengið. \"Hanna Birna verður sjálf að sækja sér nýtt upphaf,“ segir einn viðmælenda Hringbrautar úr hópi sjálfstæðismanna. \"Það verður kannski ekki í boði á þessum landsfundi.\"

Fleiri áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins sem Hringbraut hefur talað við ræða stöðuna á svipuðum nótum. Nefnt er að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sé í erfiðri stöðu „þar sem Davíð Oddsson sé Hönnu Birnu maður“ eins og einn heimildarmanna Hringbrautar orðar það. Áhrif Davíðs innan flokksins skuli ekki vanmetin.

Aðrar heimildir Hringbrautar benda á að Ólöf Nordal, sem nefnd hefur verið til varaformanns flokksins, viji ekki fara í kosningaslag. Ef það er rétt bendir svar Hönnu Birnu við fyrirspurn Hringbrautar til að þær tvær eigi það sameiginlegt. Þótt Hanna Birna segist ófús til að taka slaginn ef stefni í átök er eigi að síður hermt að hún hafi harðsnúið lið með sér, þá Kjartan Gunnarsson, Björn Bjarnason, Styrmi Gunnarsson, Hannes Hólmstein, Þorbjörgu Vigfúsdóttur, Þór Sigfússon, Árna Sigfússon, Halldóru Vífilsdóttir, Friðrik Friðriksson, eiginmann Elínar Hirst þingmanns og Jón Steinar Gunnlaugsson lögmann.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 23.- 25. október næstkomandi, eftir sléttan mánuð. Öruggt er talið að Bjarni Beneditksson fái afgerandi kosningu sem formaður en rík hefð er fyrir því í seinni tíð að kona skipi varaformannsembættið innan flokksins. Af öðrum sem kæmu til greina til varaformanns eru nefndar Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

 (Fréttaskýring: Björn Þorláksson)