Gulli ætlar í varaformanninn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ætlar að gera atlögu að embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi nú í haust.

Orðrómur hefur verið um þetta innan flokksins að undanförnu. Nýjasta útspil hans þykir styðja þessa kenningu en Gulli var að bjóða Bretum aðild að EFTA þegar þeir hrökklast út úr ESB á næstunni.

Flestir brosa góðlátlega yfir því að utanríkisráðherra dvergríkis telji sig þess umkominn að senda slíkt boð. Auðvitað er það marklaust með öllu.

En Gulli veit hvað hann er að gera með þessu. Hann gjörþekkir eðli landsfundar flokksins. Þar er ekki mættur þverskurður af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins og enn síður þverskurður þjóðarinnar. Þar kemur saman hópur fólks á vegum flokkseigendanna og sérhagsmunaafla sem vilja einmitt að utanríkisráðherra flokksins tali svona; vorkenni Bretum og rífi kjaft við ESB.

Margir telja að Sjálfstæðisflokkurinn verði að hafa konu sem varaformann á meðan karl er formaður. Þannig hefur það verið síðustu 12 árin. En nú á flokkurinn enga frambærilega konu sem getur risið undir þessu hlutverki eftir að Ólöf Nordal féll frá.

Guðlaugur Þór gerir sér þetta ljóst og mun stefna ótrauður á embætti varaformanns í byrjun nóvember. Hann verður ekki stöðvaður. Guðlaugur er tvímælalaust næstur á eftir Bjarna Benediktssyni í flokknum hvað styrk varðar og því gerir hann réttmætt tilkall til varaformannsembættisins.

Flokkurinn mun velja konu í embætti ritara. Annað hvort verður Áslaug Arna endurkjörin eða þá verður fundin önnur kona úr þingliðinu eða sveitarstjórnum þó ekki sé um auðugan garð að gresja.

rtá.

http://www.hringbraut.is/frettir/efta