Guðni er hinn eini og sanni maður ársins 2016

Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, er ótvírætt maður ársins 2016 á Íslandi að mati Dagfara.

Fjölmiðlar hafa staðið að slíku vali undanfarna daga þar sem niðurstöður hafa svosem verið út og suður.

En staðreyndir verða ekki umflúnar: Guðni Th Jóhannesson kom, sá og sigraði. Fyrst með glæsibrag í forsetakosningunum og svo vann hann hug og hjörtu landsmanna með einlægri og ósnobbaðri framkomu sinni. Hann bætir við afrekaskrá sína í hverri viku og virðist ekki hafa neitt fyrir því.

Nýjasta dæmið er snilldarræða sem hann flutti við athöfn þegar íþróttamaður ársins var útnefndur. Endirinn á ræðu Guðna verður lengi í minnum hafður þegar hann endurflutti heimsfræg viðbrögð Guðmundar Benediktssonar þegar Ísland bar sigurorð af Englandi í knattspyrnu sl. sumar sællar minningar. Víst er að þetta hefði enginn fyrirrennara hans haft kjark til að gera.

Með þessu undirstrikaði Guðni þau skýru kynslóðaskipti sem eru að verða í forystu þjóðarinnar.

Dagfari var viðstaddur þennan viðburð, eins og mörg undanfarin ár, og upplifði þá gleði og bjartsýni sem nýji forsetinn færði með sér inn á sviðið.

Guðni Th Jóhannesson er maður ársins - og framtíðarinnar.

Gleðilegt ár!