Guðdómlega ljúffengt bláskelspasta að hætti Kaju sem tryllir gestina

Það má með sanni að matur sé manns gaman og ekkert er skemmtilegra en að prófa nýja rétti sem innihalda ferskmeti og ljúffeng brögð sem kitla bragðlaukana.

Í þættinum Fasteignir og Heimili heimsótti Sjöfn Þórðar, Karenu Jónsdóttur, sem ávallt er kölluð Kaja, í Matarbúr Kaju á Akranesi. Sjöfn fékk hana til að töfra fram einn af sínum uppáhalds réttum. Kaja svipti hulunni af sínum uppáhalds pastarétti sem er ótrúlega létt að elda og framreiða með glæsibrag. aja eldaði Bláskelspasta þar sem hráefnið er allt fyrsta flokks og lífrænt í forgrunni. Upplifun Sjafnar var guðdómleg þar sem bragðlaukarnir nutu sín í botn með hverjum munnbita.

„Ferskt pasta gerir gæfumuninn og það er ótrúlega seðjandi og mjúkt undir tönn,“ segir Kaja. Sjöfn fékk Kaju til að gefa lesendum uppskriftina að af þessum guðdómlega Skelfiskspastarétti sem enginn stenst. Hér má einnig sjá þáttinn með Kaju: https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/fasteignir-og-heimili/27-april-2020/

Bláskelspasta að hætti Kaju

Ferskt Kaju pasta ( fæst í Hagkaup, Melabúðinni, Frú Laugu, Brauðhúsinu og Matarbúri Kaju)

250 g bláskel forsoðin

30 g íslenskir lerkisveppir ( fást í Hagkaup, Melabúðinni, Frú Laugu, Matarbúri Kaju)

½ box kirsuberja tómatar

2-3 hvítlauksrif pressuð

1-2 sítrónu bátar fer eftir stærð

½ tsk. Chilli, má vera minna

Byrjið á því að hella rjóma á pönnu ásamt hvítlauk pressuðum og lerkisveppum, best er að mylja lerkisveppina ofan í rjómann. Látið suðuna koma upp, lækkið undir og látið malla í um það bil 10 mínútur. Kreistið 1 sítónubát út í og chilli. Setjið vatn yfir fyrir pastað og bíðið eftir að suða komi upp. Bætið bláskelinni út í rjómasósuna og látið malla í um það bil 5 mínútur. Smakkið til og athugið hvort meiri sítrónu þurfi eða hvítlauk. Setjið pastað út í vatnið og sjóðið í rétt rúma mínútu. Hellið vatninu af og setjið pastað síðan út í rjómasósuna. Hrærið saman og bætið tómötum út í. Borið fram með parmesan osti og myljið hvítan pipar yfir ásamt ferskri steinselju.

Njótið vel!