Fanney grét eftir dóm héraðsdóms

Fanney Björk Ásbjörnsdóttir, leikskólakennari í Vestmannaeyjum, lýsti á einlægan og hispurslausan hátt 30 ára sjúkrasögu sinni í fréttaskýringarþættinum Kvikan sem frunsýndur var á Hringbraut í gærkvöld. Hún lýsti fordómunum sem hún hefur upplifað vegna sjúkdóms síns, lifrarbólgu C. Hún sagði í raun að það hefði verið stór ákvörðun vegna fordóma samfélagsins gagnvart sjúkdóminum að stíga fram og segja opinberlega frá baráttunni við kerfið.

Þekkt er að sprautufíklar fái lifrarbólgu C. Sú er þó alls ekki raunin í tilviki Fanneyjar. Hún fékk sýkt blóð í æð á spítala í Eyjum eftir að hún eignaðist barn árið 1983. Sjúkdómurinn gerði vart við sig tveimur árum síðar og hefur Fanney tvisvar lent í lífshættu vegna sjúkdómsins og meðhöndlunar við honum á 30 ára þrautagöngu í baráttu sinni. Líkami hennar hefur hafnað lyfi með alvarlegum afleiðingum.

Síðan hefur orðið bylting í lyfjavísindum. Byltingin hefur orðið til þess að hægt er að uppræta veiruna í langflestum tilvikum á frekar einfaldan hátt, ef sjúklingar fá nýju lyfin. Djúp von kviknaði í hjarta Fanneyjar en í vor hafnaði ríkið beiðni læknis hennar um eitt nýju undralyfjanna, Harvoni, sem myndi með 95% líkum ekki bara halda lifrarbólguveirunni niðri heldur uppræta hana. Lyfið kostar um 10 milljónir króna.

Fanney lýsti í sjónvarpsþættinum hvernig djúpstæð vonbrigði hefðu leyst fyrri von hennar og bjartsýni af hólmi í hjarta hennar þegar hún heyrði af töfralyfinu. Hún höfðaði mál gegn ríkinu en tapaði því. Eftir að dómur féll í Héraðsdómi Reykjavík sl. föstudag segist hún hafa brotnað niður og grátið og grátið.

Í Kvikunni gagnrýndi Fanney heilbrigðisráðherra harðlega fyrir að aðhafast ekki. Hún telur að stéttskipt heilbrigðisþjónusta hafi leyst af það sem hún taldi áður bestu heilbrigðisþjónustu í heimi og átti þá við Ísland fyrri tíma. Hún upplifir mannamun og fordóma á meðan sandurinn rennur í líftímaglasinu hennar. Auk þess að vera með hrunið ónæmiskerfi, sífelldan hita, ónýtar tennur og hafa ekki getað unnið árum saman vegna sjúkdómsins getur lifrarbólga leitt til skorpulifurs sem er banvæn þannig að það getur verið dagaspursmál að Fanney fái nýja undralyfið.

Sérfræðingar sem höfðu samband við þáttastjórnanda Kvikunnar að lokinni sýningu þáttarins í gærkvöld vildu ekki koma fram undir nafni en sögðu að hendur embættismanna innan heilbrigðiskerfisins væru bundnar, málið væri 100% pólitískt. Heilbrigðisráðherra og Alþingi gætu höggvið á hnútinn, aðrir ekki.

Ef Fanney fær lyfið og ríkið niðurgreiðir það að mestu standa líkur til þess að ríkið verði að opna aðrar nýjar lyfjagáttir fyrir öðrum sjúklingum með lifrarbólgu. Í forgangshópi eru nokkrir tugir manna en alls eru á bilinu 800-1000 Íslendingar með lifrarbólgu C. Telur Fanney að þar kunni hnífurinn að standa í kúnni. Í sjónvarpsviðtalinu kom fram að hún tengir pattstöðuna nú enn og aftur langri sögu fordóma gagnvart lifrarbólgu C sem og nýrri forgangsröðun fjármuna í heilbrigðiskerfinu, þar sem Jón og séra Jón sitji ekki við sama borð. Fanney hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll síðastliðinn föstudag til Hæstaréttar en með dóminum var ríkinu ekki talið skylt að veita Fanneyju nýja lyfið.

Hið átakanlega sjónvarpsviðtal við Fanneyju má sjá hér.