Gemsi hringdi á viðkvæmri stundu

Leikrit Jóns Páls Eyjólfssonar, Býr Íslendingur hér, sem byggir á samnefndri bók Garðars Sverrissonar, var frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar í Samkomuhúsinu í gærkvöld. Þar er sögð saga Leifs Mullers sem með ótrúlegri þrautseigju tókst að lifa að hryllilega fangavist, fyrst í Noregi en síðan í Þýskalandi þegar nasistar náðu völdum í Seinni heimsstyrjöldinni.

Tveir leikarar skipta með sér hlutverki Leifs, Benedikt Gröndal og Arnar Jónsson. Allt andrúmsloft sýningarinnar er viðkvæmt og mátti heyra saumnál detta milli orða leikaranna. Skömmu eftir hlé leiddi sýningin áhorfandann inn í ofurviðkvæmt augnablik, stutt eintal Arnars á sviðinu. Byrjaði þá gemsi að hringja örskammt frá fanganum. Truflunin kom frá leikhúsgesti í fremstu sætaröðum og góð ráð dýr. Var tekið til þess meðal áhorfenda hve reynsla Arnars, eins ástsælasta leikara þjóðarinnar, kom sér vel á þessu augnabliki. Hann gaut þungum en stillilegum augum sínum á eiganda símans en brá ekki svip að öðru leyti. Beið svo nokkra stund. Síminn var grafinn ofan í tösku, stigmagnaðist styrkur hringingarinnar uns eigandinn hitti loksins á rétta takkann sem drap hávaðann. Virtist þá hafa liðið heil eilífð og hafði eflaust hlaupið hiti í kinnar farsímaeigandans. Almennt lét salurinn þó ekki uppákomuna hafa áhrif á upplifunina og sömu sögu var að segja um leikarana.

Gestir fögnuðu ákaflega í sýningarlok. Um leið er símhringingin áminning til allra sem sækja listviðburði, að hafa sitt á hreinu.