Galnar kosningar valda víðtækum skaða

Ljóst er að óþarfar og ótímabærar kosningar munu valda samfélaginu margvíslegum skaða og trúlega munu þær ekki leiða til neins góðs í þjóðfélaginu.
 
Það er alveg galið að fara í kosningar núna.
Fjárlög fyrir næsta ár eru sett í uppnám. Stórar stéttir verða senn með lausa kjarasamninga. Efling helstu kerfa samfélagsins mun bíða enn lengur þó efling þeirra þoli enga bið. Þá er að sjálfsögðu átt við heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfið sem öll hafa dregist aftur úr og bíða öflugra innspýtinga í anda þess sem allir flokkar lofuðu fyrir síðustu kosningar.
 
Óvissa í stjórnmálum skaðar atvinnulífið og vinnumarkaðinn. Verðbréfamarkaðir verða fyrir truflunum, kjarkur til fjárfestinga og uppbyggingar minnkar og hætta skapast á því að Seðlabanki Íslands noti tækifærið til að hækka stýrivexti. Allt þetta gæti valdið skaða sem tæki langan tíma að vinna upp.
 
Hefði verið unnt að afstýra þessu vitleysisástandi?
 
Já, að sjálfsögðu. Ef forsætisráðherra hefði verið betur vakandi hefði hann átt að leysa þann ágreining sem upp kom við Bjarta framtíð vegna embættisafglapa Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og flumbrugangs Brynjars Níelssonar. Bjarni hefði þurft að fórna þeim eins og skákmenn losa sig við \"eitruð peð\" af taflborðinu.
 
Með nýjum dómsmálaráðherra úr liði Sjálfstæðismanna í stað Sigríðar hefði mátt uppfylla óskir Bjartrar framtíðar um breytt og bætt vinnubrögð. Einnig hefði þá fengist viðurkenning á ólíðandi vinnubrögðum hennar. Með því hefði mátt koma í veg fyrir þessi tilviljunarkenndu og skaðlegu stjórnarslit.
 
En Bjarni Benediktsson svaf á verðinum og því fór sem fór.
 
Rtá.