Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn algjört bíó!

Tilkynning frá forsætisráðuneytinu um dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag var send út til fjölmiðla rétt í þessu. Mestöll dagskráin á fyrsta ríkisstjórnarfundinum undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra sem fram fór í morgun snertir aflandsmál. En þeim sem skoðar persónur og leikendur á svona fundi eins og fram fór í morgun líður e.t.v. eins og í leikriti eftir Dario Fo, EF sá hinn sami nennir að þvælast bak við það sem segir í annars knöppum texta ráðuneytisins.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að fjármálaráðherra hafi sett fram mál sem varðar upplýsingar um skattaskjól og viðbrögð stjórnvalda við þeim. Ekkert meira en það. Það segir ekkert um það í tilkynningunni að fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hafi sjálfur orðið uppvís að því að eiga félag sem vistað var í skattaskjólinu Seychelles-eyjum. Eigum við bara að láta eins og ekkert sé? Dugar að skrifa bara eins og fram kemur í tilkynningunni: \"Fjármála- og efnahagsráðherra: Upplýsingar um skattaskjól og viðbrögð stjórnvalda við þeim.\"

Þá lagði nýr utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir fram sitt fyrsta mál í morgun, \"Erlenda umfjöllun um Ísland og Panamaskjölin og viðbrögð við umfjöllun\". Ekki meir um það. Það segir ekki í tilkynningunni að umfjöllunin hafi bæði verið gagnrýnin og neikvæð og að hún muni augljóslega verða það eins lengi og ríkisstjórnin grípur ekki til frekari ráðstafana til að reyna að endurheimta traust Íslands á alþjóðavísu. Það mun varla takast nema að skipta út fleira fólki.

Innanríkisráðherra lagði svo fram frumvarp til laga um útlendinga.

Þetta er algjört bíó.

Björn Þorláksson