Fullveldið: uppgjör framsóknarmanns!

Það var ekki fyrr en ég settist á skólabekk á miðjum aldri og tók ýmis námskeið í stjórnmálafræðum í bæði grunnnámi og á meistarastigi, bæði innlenda kúrsa sem og áfanga um alþjóðastjórnmál, sem ég áttaði mig á því að gamla framsóknarhjartað mitt var komið úr takti þegar kom að hugmyndum mínum um fullveldi Íslendinga.
Ég hafði fæðst inn í Framsóknarflokkinn og hafði fram eftir árum - uns þroska var loks náð - verið í hópi þeirra Hriflu-Íslendinga sem höfðu hoppað á það akkeri orðræðunnar sem krækti sig fast í fullveldisskruminu þegar ESB bar á góma. Ég hafði tengt flest framfaraskref landans á öldinni sem leið til frelsis okkar Íslendinga og sjálfstæðisbaráttu. Hafði ekki áttað mig á að það voru hugmyndir að utan og samstarf og viðskipti við útlönd sem komu okkur mörlöndum upp úr torfkofanum.

Í stjórnmálafræðináminu varð mér ljóst af gögnum, þá ekki síst talnalegum samanburði, að með síðari tíma hnattvæðingu og tæknibyltingum er þetta rómaða fullveldi okkar að engu orðið. Fyrir smáríki eins og Ísland hefur kannski aldrei verið neitt fullveldi til en síst þó eftir EES-samninginn og síðari tíma hnattvæðingu. Fjórfrelsið svokallaða. Að ekki sé talað um ferðamannastrauminn og allan auðinn sem berst hingað til lands sakir gestanna okkar en kallar líka á fórnir. Allt hefur þetta orðið til þess að þeir sem halda sig við torfkofahugsunina  geta átt þetta fullveldi sitt, troðið því þar sem sólin aldrei skín. Í dag snýst allt um að vera leikmaður á opnum markaði, nútímalegur, snar og snöggur leikmaður. Í dag farnast þeim best sem hugsar ekki um Ísland sem einangraða stærð heldur stak í ógnarstóru mengi umheimsins. Þar verður ekki bæði haldið og sleppt.


Þegar ég ók upp að Skútustaðaskóla nú um helgina, húsinu sem stendur á hæð austan Álftagerðis sunnan Mývatns, þar sem kennarar fóstruðu mig i gamla daga í sveitinni, hafði ég ekki fyrr tekið beygjuna út af þjóðveginum í átt að gamla skólanum mínum en ég var hundeltur af öryggisverði sem kom akandi á eftir mér. Þarna er reyndar enginn skóli í dag heldur hótel. Og fyrir framan hótelið sem áður var héraðsskóli Mývetninga er í ofanálag búið að reisa skemmur og búðir vegna stórverkefnis fram undan, kvikmyndatöku fyrir ameríska bíómynd. Heimamenn sögðu mér eftir að ég hafði hrist af mér öryggisvörðinn án þess að taka eina einustu mynd, þorði það ekki þótt ég sé blaðamaður, að ein ástæða þess að öryggisverðir ráða nú ríkjum í sveitinni fögru, kynni að vera sú að nokkrir af dýrustu bílum heims séu hýstir á svæðinu. Gulur Lamborgini hefur sérstaklega verið nefndur til sögunnar, bíll sem verður ekið á ísi lögðu Mývatni innan skamms í Fast and the Furious 8.


Ég ók í burt, ók burt frá hólnum sunnan Mývatns þar sem kennarar börðu áður Íslandssöguna, tugabrotin og tungumálið okkar ástkæra inn í hausinn á mér. Nú er á þessum hól töluð alþjóðatungumálið enska. Sagan af ganla skólanum mínum er e.t.v. dæmisaga um að heimurinn hefur breyst. Þessi kvikmyndataka ein og sér færir e.t.v. frændum mínum í Mývatnssveitinni hundruð milljóna í tekjur af gistingu og matsölu. Gjaldið sem heimamenn greiða á móti er frelsið, eða fullveldið og friðurinn sem þeir nutu áður.

Sú tíð er liðin að maður geti lengur átt stund með sjálfum sér uppi á fjallstoppi, allar líkur eru á að ferðamenn veiti manni félagsskap, bæði undir fjalli, á því miðju eða á toppnum. Það er þróun sem hvorki er hægt að kalla góða eða vonda. En það er breyting. Sú breyting er að líkindum komin til að vera.Gildir einu á hverju gömul hagsmunatengd pólitísk nátttröll japla á um fullveldið og frelsið. Það er ekki lengur til sem einangruð stærð.

Í dag eru bæði tækifæri og ógnir. En við höfum sem þjóð sammælst um að þátttaka i alþjóðasamstarfi leiði af sér fleiri tækifæri en ógnir. Það ætti að vera okkar leiðarljós til framtíðar. Umræðan um stjórnarskrána ætti að taka mið af því. Borgarar landsins ættu af þeim sökum sjálfir að fá að ráða því hvort við göngum í ESB eða ekki. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að úthluta lífsins alþjóðlegu gæðum og tækifærum.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)