Fuglafæla skýtur löggu skelk í bringu

Í október árið 2014 skrifaði Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor í félagsvísindum grein vegna aukins vopnaburðar lögreglu hér á landi. Umræða fór þá fram um málið og söknuðu ýmsir þess að Alþingi eða almenningur hefði ekki eitthvað um ákvarðanir lögreglu að segja.

„Hún [lögreglan] leyndi þegnana verulegri vopnavæðingu. Þar hvarf heiðarleikinn og hreinskilnin. Því miður óttast ég að þetta verði til þess að ala á ótta og rýri traust lögreglunnar. Vissulega lifum við viðsjárverða tíma. Eiturlyfin og mansalið fara ekki fram hjá Íslandi frekar en öðrum löndum og undirheimarnir verða sífellt grimmari. Til þess er Víkingasveitin. Að takast á við erfiðu tilfellin,“ skrifaði Ingi Rúnar í grein á herdubreid.is.

Þessi orð komu upp í hugann vegna frétta gærdagsins, þar sem elektrónísk fuglafæla til verndar fiski leiddi til þess að löggur hringdu í fleiri löggur og um síðir fylltist Garðurinn af þungvopnuðu lögguliði sem komið var saman til að sprengja eitt stykki fuglafælu í tætlur!

Ræðum aðeins hugtök. Stundum er talað um greiðsluvilja þegar kemur að skuldum. Í mínu fagi blaðamennskunni er stundum rætt um fréttavilja og hann mismikinn eftir málum. Ég hef svosum ekki séð hugtakið \"óttavilja\" á prenti áður, það var fyrst að koma upp í hugann rétt í þessu en kannski mætti  spyrja hvort óttavilji sé til? Þegar ályktað er að vá sé fyrir hendi sem engin þó er. Viðbrögðin verði í samræmi við  ranga ályktun.

Það var ánægjulegt að sjá hve vel tókst til þegar andlega veikur byssumaður í Naustahverfi á Akureyri gafst upp um helgina fyrir lögreglu án þess að skaði hlytist af.

Á hinn bóginn varð Hraunbæjarmálið svokallaða mikill harmleikur. Veikur maður var þá drepinn af lögreglu eftir umsátur. Engan veginn liggur skýrt fyrir að umhverfi mannsins hafi staðið lífshættuleg ógn af framferði hins sjúka sem heilbrigðiskerfið hafði ekki sinnt sem skyldi, það vantaði úrræði. Löggan drap manninn vissulega óvart. En hún drap hann samt. Margir stigu þá fram og spurðu hvað orðið hefði um gömlu og góðu löggulempnina sem hefur verið hluti af stjórnun landsins. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur talað fyrir samtali og lempni sem betri löggæsluleið en ofbeldi og vopnaburði. Í þeim efnum skiptir miklu hvaða viðhorf lögreglumenn hafa til þess vanda sem þeir telja sig standa frammi fyrir þá stundina. Er ábyrgðarvilj fyrir hendi eða óttavilji?

Guðmundur Ævar Oddsson doktor sem kennir afbrotafræði við Norður Michigan-háskóla, hefur borið saman verklagsreglur og siði íslenskrar og amerískrar lögreglu. Hann skrifaði þegar aukin vopnanotkun ísensku lögreglunnar hafði orðið að veruleika. \"Tíðni alvarlegra ofbeldisglæpa á Íslandi er t.a.m. afar lág í alþjóðlegum samanburði og tilvik sem kalla á mundun skotvopna eru afar fátíð. Spyrja mætti hvort lögreglan íslenska hafi sleppt mörgum milliþrepum í vopnakapphlaupi sínu.\"
Vitaskuld er dauðafæri fyrir pistlahöfunda að láta duga að gera grín að fuglafæludramatíkinni  í Garði í gær, ekki síst vegna rangrar fréttar Vísis að útgöngubann hefði verið sett á leikskóla og grunnskóla. En svona mál er ekki bara fyndið. Það er líka alvarlegt vegna þess að það spyr spurninga um hvaða leiðir við hyggjumst feta sem samfélag ttil framtíðar?

Ætlum við að treysta hvert öðru dags daglega? Gera ráð fyrir hinu versta, óttast hvort annað eða treysta? Á meðan við gerum upp við okkur svarið væri kannski ekki úr vegi að velta fyrir sér þeim verðmætum sem traustið, óttaleysið og samhygðin eru á okkar einangruðu eyju.

Að taka á vandamálum án vopna nema mjög brýna nauðsyn beri til gæti verið ein breytan í að viðhalda þeirri íslensku auðlegð sem öryggið og traustið hefur fært okkur á þessu friðsæla skeri.

Ótti er lamandi mein. Skortur á ótta er eitt það besta sem fylgir búsetunni hér norður í rassgati...