Fréttastefna - kardashian og bindi ólafs

Fjölmiðlum er rekstrarleg vorkunn hin síðari ár. Rekstrarforsendur eru þungar, almenningur hefur vanist því að fá fréttir frítt sem heftir frelsi blaðamanna til að vinna mikilvæg mál. Ekki alls fyrir löngu var rofin sú hefð sem byggði á ákveðnum samfélagsskilningi, að sérhæfðar afurðir blaðamanna væru í þágu almennings, að blaðamaður hefði þann trúnað einan að gæta almannahagsmuna með skrifum sínum. Fyrir þessa þjónustu greiddi fólk agnarsmáa tíund, af því að það var talið samfélaginu fyrir bestu. Og almenningur átti fyrir vikið hlut í ritstjórnarvaldinu, hlut sem það greiddi fyrir með mánaðargjaldi. Þess vegna var t.d. dagblaðið Dagur á Akureyri sannarlega blað Norðlendinga, því þeir lögðu saman í púkkið með áskriftarfé.


Með útgáfu fríblaða og frímiðla, með vaxandi græðgi í samfélaginu (og hún tengist að miklu leyti straumum og stefnum nýfrjálshyggju) rann valdið sem almenningur hafði áður innan fjölmiðla í formi áskrifta út í sandinn. Frí fjölmiðlun sem byggir á auglýsingum er markaðsdrifin. Ef vefur fær ekki smell eða athygli lesenda verður þungt að fá auglýsingar sem aftur borga laun blaðamanna og annan kostnað. Ef fáir horfa á sjónvarpsþátt, ef fáir hlusta á útvarpsþátt verður þeim kippt af dagskrá. Sú er ástæða þess að lágkúran veður uppi - svo maður tali eins og skapstyggur karlfauskur í dreifðri byggð! Prentuð blöð eru á sama tíma að syngja sitt síðasta.
Vaxandi merki um smellidólgaisma hafa orðið hjá sjálfu Ríkisútvarpinu undanfarið. Þar á bæ hafa fréttir verið tíðar af svokölluðum Kardashian-systrum, hverra ég vona að ég skrifi nafn rétt en hef þó aldrei haft áhuga á að kynnast þeirra hugmyndafræði hvað þá læra nöfn þeirra utan að. Sömu sögu er eflaust að segja um stóran hluta landsmanna.
Því skýtur skökku við að eini fjölmiðill landsins sem seilist í vasa landsmanna svo nemur milljörðum á ári í formi nefskatts og nýtur að auki yfirburðastöðu á auglýsingamarkaði miðað við minni fjölmiðla, treður í raun einkarekna fjölmiðla undir með því að vera á auglýsingamarkaði ef frá er skilið stórveldið 365, hafi síðustu daga nánast veggfóðrað vef Ríkisútvarpsins með umfjöllun um þessar systur undanfarið.
Annað dæmi eru allar fréttirnar sem einkamiðlar hafa sagt af bindi Ólafs Ragnars. Þeir sem starfa við svona fréttaskrif eru þá ekki að gera annað á meðan. 

Ykkur að segja er mér nákvæmlega sama hvort það eru fílar á bindinu hans Ólafs Ragnars eða hvort Dorrit gaf honum bindið eða við hvaða tækifæri hann hefur skartað því. Mér er líka sama hvort einhver Kim fór í heitan pott að kvöldlagi við Hótel Rangá eða ekki. 
En nú kann einhver að segja að eitt hlutverk fjölmiðla sé að skemmta sem er rétt skv. hefðbundinni skilgreiningu. En þegar Ísland logar vegna óréttar og hneykslismála væri kannski ágætt að sem flestir blaðamenn myndu sinna ástandinu, og biðu a.m.k. til kvölds áður en þeir kveiktu á grillinu og opnuðu bjórinn.
Ríkisútvarpið á að vera yfir það hafið að breyta eigin fréttavef í tabloid. Það er ókei að fólk fái upplýsingar um Kardashian en væri þá kannski frekar lag að búa til sérstakt skemmtihólf á vefnum utan forsíðu líkt og að Krakkafréttir eru vistaðar í sérstöku boxi?

A.m.k. er mér meinilla sem skattborgara sem greiðir laun fréttamanna ríkisins við að peningarnir fari í þetta runk. Með sama hætti og ég var stoltur af almannaútvarpinu og greiddi Rúv með velþóknun nefskatinn þegar afhjúpun Kastljóssins átti sér stað um daginn finnst mér að Rúv eigi að vera yfir þetta hafið. Mér þykir vænt um Rúv. Í lokaritgerð minni í meistaranámi í blaðamennsku tók ég saman gögn sem sýndu fram á mikilvægi þess að Ísland verði eigið almannaútvarp sem ráðandi öfl hafa sótt að með ómaklegum hætti. En Rúv á að vera einkafjölmiðlum fyrirmynd með því að elta ekki þá smelli sem það þarf ekki fjárhagsstöðu sinnar vegna að elta. Og hvað varð eiginlega um goðsögnina að hingað gæti frægt fólk komið án þess að landinn eða a.m.k. starfsmenn ríkisins legðust á hliðina? Er sá tími liðinn?

Þess utan á Rúv að hverfa af auglýsingamarkaði strax.

Björn Þorláksson