Framsóknarflokkurinn virkar!

“Politics is the art of looking for trouble, finding it everywhere, diagnosing it incorrectly and applying the wrong remedies.” 

Þessi orð eru höfð eftir Groucho Marx, en eins og oft háttar til með húmor er nokkur broddur í þeim. Þýða þætti ummælin sem svo að pólitík snerist um þá list að leita uppi vandann, finna hann út um allt, sjúkdómsgreina vitlaust og stofna til rangrar meðferðar.  Kannski er átt við að stundum felist hagsmunir stjórnmálamanna í því að beina athygli almennings að einhverju öðru en veruleikanum, takast ekki á við það sem þyrfti að takast á við og mæla svo með vitlausri meðferð. Hér á landi má líkja smjörklípubragðinu svokallaða sem kennt er við Davíð Oddsson við þessa hugsun.

Af Davíð verður þó ekki tekið, að lengst af í stjórnartíð hans, var hann réttkjörinn leiðtogi stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Fyrir Írakshneykslið og fleiri vondar ákvarðanir síðar höfðu helstu valdaflokkar landsins um langt skeið óskorað umboð frá meirihluta þjóðarinnar til að halda utan um stefnu Íslands. Allt fram að hruni. Þá breyttist allt. Frá og með þeim tímapunkti hófum við nýja skoðun á fortíð okkar og liggur niðurstaðan fyrir í óháðri og faglega hlutlægri Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þungur áfellisdómur yfir stjórnarfari hér á landi sem tók of mikið mið af persónulegum hagsmunum þingmanna.

Trúnaðarsárið milli þjóðarinnar og ráðandi stjórnmálamanna hér á landi er enn ekki gróið þótt blóði drifinn almenningur hafi með aðstoð stjórnmálamanna lyft grettistaki í því að koma þjóðarskútunni aftur á efnahagslegt flot. Reyndar benda skoðanakannanir til að gjáin milli pöpulsins og pólitíkusa hafi aldrei verið dýpri. Sú staða ætti að vera hinum hefðbundna stjórnmálamanni mikið áhyggjuefni. Sannarlega er trúnaðarbresturinn almenningi mikið áhyggjuefni, margt upplýst fólk kvartar sem dæmi yfir því að samleið þess með áherslum stjórnmálamanna sé ekki söm og áður. Þá er ekki spurt um flokksskírteini. Í fáum orðum sagt gengur ekki til lengdar að almenningur finni ekki fyrir sátt við eigið samfélag á sama tíma og efnahagsstjórnin virðist upp á við, hagvöxtur í hæstu hæðum og atvinnuleysi lítið. Hrun Samfylkingarinnar er dæmi um að þar dugar ekki að varpa allri sök á gömlu valdaflokkana framsókn og sjalla.

Það eru eflaust margar ástæður fyrir þessum trúnaðarbresti, almenningur hefur fengið á tilfinninguna að þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar og æ fámennari klíkur í kringum þá, hugi síður að almannahagsmunum en sérhagsmunum. Skýrt dæmi er þegar foringjar, rúnir trausti, neita að víkja úr embættum sínum. Við sjáum það í stefnu og áherslum, við sjáum það grímulaust í einstökum málum líkt og aflagningu auðlegðarskatts.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þjóðarinnar fékk tækifæri fyrir framan alþjóð í viðtali í Kastljósi í gærkvöld til að hefja nýtt trúnaðarsamtal við þjóðina nú þegar seinni hluti kjörtímabilsins er hafinn. Sigmundur fékk tækifæri til að reyna að mynda brú milli ríkisstjórnar og almennings. Hann var spurður út í þversögnina, hvers vegna þjóðin sneri samkvæmt skoðanakönnunum baki við hinum hefðbundnu stjórnmálastofnunum hér á landi, á sama tíma og meirihutinn kallar fjárlagafrumvarp sitt velferðarfjárlög og landið virðist efnahagslega í sókn.  Í stað þess að gera tilraun til heiðarlegrar sjúkdómsgreiningar á ástandinu, í stað þess að reyna að finna réttu lyfin eða langtímameðferðina í átt að betra trausti og betri líðan almennings,  í stað auðmýktar sem svo margir lýsa eftir í íslenskum stjórnmálum, ákvað forsætisráherra að slá stærstan hluta íslensks almennings undir með því að kalla Pírata jaðarflokk. Eftir upptalningu á mörgu hinu vafasamasta í alþjóðapólitík nú um stundir.

Sigmundur þyrfti að kynna sér hvað liggur að baki satírunnar hjá Groucho.

Sigmundur þyrfti að rifja það upp að við vitum að hann hagnaðist persónulega milli ára um 8 milljónir króna beint í vasann eftir að hann ákvað sjálfur með Bjarna Benediktssyni að afnema auðlegðarskatt. Auðlegðarskattur lagðist á einstaklinga sem áttu 75 milljónir eða meira og hjón sem áttu 100 milljónir. Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra áttu meiri eignir en þetta, Sigmundur Davíð var fyrir þremur árum skráður fyrir eign upp á 1,1 milljarð króna umfram skuldir ásamt konu sinni. Hann greiddi 18,1 milljón króna í opinber gjöld í fyrra. Átta milljónir í skatta í ár.

Framsóknarflokkurinn virkar, sagði formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra í gærkvöld.

Spurningin er bara hvernig og fyrir hverja?