Framsókn ætlar að verja sérhagsmunina áfram

Framsóknarflokkurinn hefur birt kosningastefnuskrá sína. Þar kemur skýrt fram að flokkurinn ætlar ekki að breyta neinu til bóta í þjóðfélaginu. Áfram er ætlunin að velja sérhagsmuni hinna fáu og ríku, einkum bænda og sægreifa.

Ekki er minnst einu orði á að endurmeta búvörusamninginn sem fráfarandi ríkisstjórn samþykkt en samningurinn er af mörgum talinn tilræði við neytendur. Hann er ekki hagstæður fyrir alla bændur en afar góður fyrir milliliði landbúnaðarins og afurðarstöðvar. Ekki er heldur minnst á að hækka þurfi það afgjald af sjávarútvegsauðlindinni sem ríkisstjórnin er búin að lækka úr 18 milljörðum niður í 5 milljarða á kjörtímabilinu. Flestir gera sér ljóst að það nær engri átt. Gjafakvótakerfið er einn af hornsteinum Framsóknar. Engin stefnubrayting er boðuð varaðndi það. Þá er ekki vikið að því að jafna þurfi kosningarétt landsmanna. Á þéttbýlissvæðum Suð-Vestanlands hafa kjósendur eitt atkvæði en úti á landi hafa kjósendur tvö atkvæði. Það líkar Framsókn vel enda lúrir fylgi þeirra á landsbyggðinni – það sem eftir er af því. Dýru atkvæðin úti á landi nýtast flokknum vel.

Margt furðulegt finnst í stefnuskrá Framsóknar. Fátt er þó eins mikið út í hött og það sem þar getur að líta varaðndi Landsspítalann. Framsókn vill láta byggja nýjan Landsspítala á nýjum stað sem á eftir að finna. Þessi flokkur hefur tekið þátt í öllum ákvörðunum fráfarandi ríkisstjórnar varðandi byggingu Landsspítalans við Hringbraut þar sem framkvæmdir eru komnar á fulla ferð. Búið er að verja milljörðum í hönnun og skipulag og byggingarframkvæmdir standa þar yfir af krafti. Þá ætlar flokkurinn að hefja leit að nýjum stað fyrir spítalann, færa allt á byrjunarreit og seinka framkvæmdum við spítalann um trúlega 5 til 10 ár. Það getur ekki talist gott framlag til að endurreisa heilbrigðiskerfi landsmanna sem hefur vengið að drabbast niður í tíð núverandi ríkisstjórnar og vinstristjórnarinnar sem ríkti þar á undan.

Rugl af þessu tagi sæmir ekki stjórnmálaflokki sem vill láta taka sig alvarlega. Dagfari lítur þannig á að með þessu vilji Framsókn ekki láta taka sig alvarlega.

Þá er talað um það í þessari stefnuyfirlýsingu að efla þurfi “millistéttina” í landinu. Hvað er “millistétt”? Er það ekki bara flest það fólk sem telst ekki til bænda, sægreifa og annarra stórefnamanna sem flokkurinn hefur varið með kjafti og klóm ásamt Sjálfstæðisflokknum?  Það væru þá tíðindi ef framsókn ætlaði að fara að verja hagsmuni okkar hinna líka. Maður sér það ekki gerast.

Annars eru loforð Framsóknar ekki mikils virði ef við skoðum loforð þeirra fyrir síðustu kosningar og svo efndir á kjörtímabilinu þar sem þeir höfðu völdin í ríkisstjórn sinni:

Framsókn lofaði fyrir kosningar og vann sigur í kosningunum á einkum þrennu: Það átti að lækka skuldir heimila í erfiðleikum um 300 milljarða króna. Efndir voru þær að skuldalækkunin nam 80 milljörðum. Það átti að afnema verðtryggingu. Hún er enn við lýði og ekkert hefur breyst í því efni. Þá átti að stórlækka vexti og banna verðtryggð lán. Allt óbreytt í þeim efnum.

 

Dagfari telur að það sé fátt sem bendir til þess að Framsókn verði í næstu ríkisstjórn.