Forstjóri bankasýslu með tvöföld laun seðlabankastjóra

Ég hef fengið afar sterk viðbrögð við skrifum mínum um það endemis rugl sem tilvist og rekstur Bankasýslu ríkisins er.

Fólk hefur hringt í mig og efast um að það geti verið satt að skattskyldar tekjur Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, hafi verið 4,5 milljónir króna á mánuði árið 2016. Ég hef svarað því til að ekki ljúgi opinberar skattskrár. Það er því miður staðreynd að forstjóri þessa óþarfa fyrirbæris fékk 54 mkr. í laun á síðasta ári. Það kom m. a. skýrt fram í tekjublaði DV.

Bankasýslan hefur það hlutverk að vista fjögur hlutabréf í eigu ríkissjóðs. Í það verkefni er varið vel á annaðhundrað milljónum króna af almannafé.

Forstjóri Bankasýslunnar var með 4,5 milljónir í laun á mánuði í fyrra. Það er meira en tvöföld laun seðlabankastjóra á því ári og einnig meira en tvöföld laun bankastjóra Landsbankans.

Hvernig er þetta réttlætt? Hver ber ábyrgð á þessari vitleysu?

Til samanburðar má nefna að ráðherralaun eru nú um 2,2 milljónir á mánuði eða helmingur af launum forstjóra Bankasýslunnar sem lítur eftir fjórum hlutabréfum.

Forstjóri LÍfeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, Haukur Hafsteinsson, var með 2,2 m. kr. í mánaðarlaun í fyrra og ber ábyrgð á 700 milljarða eignasafni - og er hálfdrættingur í launum á við forstjóra Bankasýslunnar.

Hvaða rugl er þetta?

rtá.