Formaður Vinstri grænna í kæfandi faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn

Nýjasta Gallupkönnunin er enn eitt áfallið fyrir Vinstri græna og einkum og sér í lagi fyrir formann flokksins, forsætisráðherrann Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur komist upp með eitt og annað hin síðari ár.

Ekki verður betur séð en að tími umhyggju kjósenda og umburðarlyndis gagnvart forsætisráðherra sé að baki og kaldur veruleikinn hafi tekið við. Í kosningum haustið 2017 var fylgi Vinstri grænna 17 prósent en nú er það komið niður í 7 prósent. Tapið er hrikalegt.

Í viðtölum við fjölmiðla gerir Katrín lítið úr þessu og segir að ekki eigi að staldra of mikið við niðurstöður úr einni skoðanakönnun. En þannig er það ekki. Útkoman úr öllum skoðanakönnunum hafa verið vondar fyrir VG í langan tíma. Og ekki má gleyma því að flokkurinn galt afhroð í sveitarstjórnarkosningunum nú í vor og fékk t.d. einungis 4 prósent greiddra atkvæða í Reykjavík sem er vígi Katrínar sjálfrar og Svandísar Svavarsdóttur sem gegnir ráðherraembætti fyrir flokkinn. Vinstri græn fengu enga menn kjörna í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík og flokkurinn kemur hvergi að myndun meirihluta í mikilvægustu sveitarfélögunum. Flokkurinn er úti í kuldanum á öllu sveitarstjórnarstiginu.

Við þessar aðstæður hefði verið heiðarlegt að formaður Vinstri grænna hefði sagt af sér og dregið sig í hlé frá stjórnmálastarfi eftir að henni og flokknum er ítrekað hafnað. En Katrínu virðist ekki koma það til hugar. Hún vill ekki missa af völdunum, starfskjörunum og upphafningunni sem fylgir starfi forsætisráðherra. Að ekki sé nú um það rætt hvemjög henni virðist líka vel við að mæta á fundi hjá NATO – sem hún er reyndar á móti. Katrín hefur ítrekað að hún og flokksforysta VG vilji ekki að Ísland sé aðildarríki NATO þó svo að meirihluti stuðningsmanna flokksins styðji aðild Íslands. Svo mætir hún á alla NATO-fundi og brosir breitt fölsku brosi framan í forystumenn varnarbandalags vestrænna þjóða.

Katrín Jakobsdóttir segir við fjölmiðla að VG ætli ekki að draga sig út úr stjórnarsamstarfinu vegna þess að flokkurinn eigi svo mikið erindi, einkum á sviði loftslags-og umhverfismála og vegna mannréttinda. Nú er það svo að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-og loftslagsráðherra, hefur tekið afgerandi forystu fyrir þessum málaflokki af hálfu ríkisstjórnarinnar. Vinstri græn hafa engu við það að bæta sem Guðlaugur Þór hefur þar fram að færa. Mannréttindamálin, einkum varðandi flóttafólkið, eru í höndum Jóns Gunnarssonar, ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Djúpstæður ágreiningur er milli hans og VG um brottflutning flóttafólks frá Íslandi. Jón hefur valdið á því sviði og ljóst er að hann ætlar ekki að hlusta á skoðanir Vinstri grænna hvað það varðar. Þeir munu engu fá áorkað í þeim efnum. Jón Gunnarsson ræður og hann er að fara að senda tugi flóttamanna úr landi. Engin mun stöðva áform hans í því.

En, eru Vinstri græn náttúruverndarflokkur þegar öllu er á botninn hvolft? Ekki er það alveg ljóst. Alla vega hefur flokkurinn brugðist á sviði dýraverndar. VG hefur haft þá stefnu að vernda hvali og hamla gegn hvalveiðum við Ísland. Samt leyfir flokkurinn hvalveiðar og ólögmæta vinnslu hvalafurða undir berum himni í Hvalfirði. Slíkt er óheimilt. Öll matvælavinnsla á að fara fram innan dyra. Einnig lætur matvælaráðherrann úr Vinstri grænum blóðmerahald viðgangast þó svo að sýnt hafi verið fram á sóðalegt dýraníð í því dýrahaldi.

Þegar vinstri stjórn Katrínar var mynduð í árslok 2017 með Framsókn og Sjálfstæðisflokki þótti það að mörgu leyti einkennileg ráðstöfun. Trúlega hefði sú ríkisstjórn ekki haldið út kjörtímabilið ef ekki hefði komið til þess gífurlega vanda sem veiran olli. Stjórnmál voru þá lögð til hliðar tímabundið, enda þurftu allar að standa saman til að fást við þann margháttaða vanda. Þetta hentaði ríkisstjórninni vel.

Nú er veiruvandinn hins vegar sem betur fer að mestu að baki. Og þá getur ríkisstjórnin ekki lengur skýlt sér á bak við samstöðu og hlé á pólitísku þrasi. Þá fljóta vandamálin upp. Fátt bendir til þess að Katrín ráði við að halda ríkisstjórninni saman við núverandi aðstæður, ekki síst þar sem traust til hennar sjálfrar og hennar flokks fer hratt þverrandi á meðan hinir flokkarnir í ríkisstjórninni bæta við sig fylgi, eins og Framsókn gerir, eða halda nokkurn veginn sínu fylgi eins og Sjálfstæðisflokkurinn.

Fram til þessa hefur Katrín Jakobsdóttir fórnað nær öllu fyrir frama sinn og persónulegt hagsmunapot. Flokksmenn eru sárir og reiðir. Raunverulegir hugsjónamenn til vinstri – ómengaðir sósíalistar – hafa yfirgefið flokkinn og kjósa Sósíalistaflokk Íslands. Þeir hafa lagt á flótta og fundið skjól þar. Ekkert bendir til þess að þeir snúi til baka á næstunni. Vinstri græn munu ekki sækja fylgi inn á miðjuna og því bendir allt til þess að áframhaldandi þjónkun við hægri öflin í Sjálfstæðisflokki og Framsókn muni halda áfram að murka lífið úr Vinstri grænum.

Faðmlagið við Sjálfstæðisflokkinn er banvænt.

- Ólafur Arnarson.