Fjötraðir neytendur teknir í rass

Má maður skrifa svona fyrirsögn?

Jæja, ef manni líður eins og maður sé sem neytandi  tekinn í rass hvað eftir annað af fjármálaöflunum er þá ekki alllt í lagi að segja frá því? Líður okkur ekki mörgum þannig?

Ég er að tala um spillingu stjórnmálanna þar sem útvöldum og alltaf hinum sömu er gefið á garðann. Ég er að tala um viðskiptaspillingu, fákeppnisfjötra, ég er að tala um bankana, ofurbónusuna, valdið sem þeir taka sér sem bjóða bestu bankaþjónustu heims en loka þó visakortum okkur um leið og eitthvað bjátar á. Rukka okkur fyrir það eitt að kvarta í gegnum síma, hræða okkur til hlýðni með því að láta vélar segja okkur að allt sem við segjum verði hljóðritað.

Ég er þó ekki síst að tala um tryggingafélögin sem þögðu þunnu hljóði, gáfu engar trúverðugar skýringar á eigin græðgi, lyppuðust að hluta en rífa samt enn kjaft. Þökk sé FÍB fyrir þeirra baráttu, þökk okkur almenningi að hafa andæft kröftuglega. Það skilar einhverju, en sú saga er ekki fullsögð enn.

Hvers vegna komast bankarnir, tryggingafélögin og innmúraðir viðskipta- og stjórnmálamenn upp með að fara illa með okkur? Hvað eftir annað?

Í fyrsta lagi af því að við kjósum sambland af greindarskertum og siðspilltum eiginhagsmunadruslum yfir okkur - þótt margt gott sé líka að finna í pólitíkinni. Í öðru lagi vegna þess að við látum of margt yfir okkur ganga.

Getum við flúið í óspillt skjól eða er innbyggt að það verði að gera byltingu? Meira að segja Vörður, það tryggingafélag sem þó hefur fengið helling af nýjum kúnnum síðustu daga, svaf á Verðinum þegar Rúv hringdi í forstjórann í gær og spurði hvort tekið yrði mið af óánægjubylgju almennings þegar aðalfundur Varðar tæki ákvörðun um arð? Þá kom fát á Vörðinn, hann missti af tækifærinu að mynda nýtt traust til almennings og svara hiklaust: Já.

Þrjú félög skipta 90% tryggingamarkaðar hér á landi milli sín. Ef þau vinna saman að fákeppnisfjötrunum, skiptir engu máli hvort við flytjum okkur um set innbyrðis. Sama er með olíufélög, bankana, matvörubúðir og fleira.

Þetta er óþolandi en ekki dugar að gefast upp. Við þurfum að veita meira aðhald, megum ekki láta duga að tuða á facebook, við verðum að nýta okkur valdið sem samstaða almennings getur skapað, það þarf að ala upp þessa kújóna með nýjum hætti.

Nýtt upphaf gæti verið að læra rétta svarið utan að þegar freku karlarnir stara á okkur með yfirlætislegu hæðnisglotti og spyrja: \"Ertu á móti því að fyrirtæki græði pening?\" Svarið okkar er já – þegar það bitnar á okkur, þegar gróðinn er tilkominn af því að það er farið illa með okkur. Tryggingafélagaskandallinn er erkidæmi um þetta.

Í heilbrigðu samkeppnisumhverfi njóta neytendur virkrar samkeppni, þeir njóta t.d. gylliboða þegar fyrirtæki hafa skitið upp á bak, því ef skaði verður ekki bættur fer fólk annað.  En hvert? Hvar er neytendavirðingin? Sumir hyggjast nú lækka arðgreiðslur, gagnast það okkur? Væri ekki nær að viðurkenna græðgisruglið, biðjast afsökunar og lækka okkar ðgjöld? Væri það ekki heilbrigt dæmi um skaðastjórnun?

Söfnust saman, hrópum á götuhornum. Marserum inn í þessi félög, bankana, tryggingafélögin, olíufélögin. Krefjumst réttlætis. Að líða eins og fanga í samfélagi sem kennir sig við frjálsan markaðsbúskap er í praktíkinni eins og fáránlegur brandari. Við erum líka með illa laskaðar eftirlitsstofnanir, en það stendur til að gera þær enn ónýtari en áður, enda er \"eftirlitsiðnaðurinn\" talaður niður sem aldrei fyrr. Að velja svo neikvætt orð yfir lagalegt aðhald segir sitt um ásetninginn og græðgina. Hún er ekki að fara neitt - ekki nema að hún verði stöðvuð. Það þarf að kremja þessa grægði. Íslenska neytendabyltingu, já takk! Samstöðu, já takk!

(Þessi eldmessa Björns Þorlákssonar birtist fyrst í kvikunni á hringbraut.is)