Fjölmiðlar tekið yfir hlutverk kirkjunnar


Þorbjörn Broddason, prófessor í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands, segir að íslenskir fjölmiðlar hafi náð vopnum sínum á ný og séu ekki lengur bara lýsendur í samfélaginu heldur einnig gerendur.

Með því vísar Þorbjörn til Kastljóssþáttarins fræga á sunnudag og afleiðingar afhjúpunar hundruða blaðamanna þar sem margir æðstu ráðamenn og viðskiptamenn eru sannarlega tengdir eignum í skattaskjólum. Ummæli Þorbjarnar féllu á Rás 1 og hitta marga í hjartastað, enda eru áhrif afhjúpunarinnar gríðarleg. 22.000 manns mótmæltu í gær og má samkvæmt samtölum sem ég hef átt sem fjölmiðlamaður á Hringbraut við grasrót mótmælanna, íslenskan almenning á Austurvelli, að miklu leyti rekja reiði fólks til þeirra upplýsinga sem blaðamenn settu fram og á þar mestan heiður Jóhannes Kr. Kristjánsson. Ein niðurstaðan er að Ísland situr uppi með spurninguna hvort fjármálaspilling meðal ráðamanna hér á landi sé enn eitt heimsmetið. Þegar síst skyldi, þegar traust og trúverðugleiki var fyrir í molum og endurreisn landsins alls ekki lokið eftir siðferðislegt hrun sem öllum varð ljóst með falli bankanna.

Vegna ummæla Þorbjörns kann að vera gagnlegt að nefna nokkrar staðreyndir úr fjölmiðlafræðum. Fréttum er oft skipt í tvo flokka, annars vegar lýsandi fréttir og hins vegar greinandi fréttir. Afhjúpun rannsóknarblaðamannanna er augljóslega greinandi. Kvartað hefur verið undan því að fréttir íslenskra fjölmiðla séu aðallega lýsandi og gæti þar með ekki aðhalds- og eftirhlutverks fjölmiðla sem skyldi líkt og staðfest hefur verið í Rannsóknarskýrslu Alþingis fyrir hrun. Hitt þori ég að fullyrða sem blaða- og fréttamaður til langs tíma að íslenskir blaðamenn hafa óttast að leggja nöfn sín við greinandi umfjöllun, þeir hafa fælst að kafa undir yfirborðið fremur en að segja aðeins frá því sem virðist vera á yfirborðinu. Með öðrum orðum erum við að tala um að blaðamenn hafi að jafnaði látið duga að hafa eftir valdafólki það sem valdhafar hafa að segja um eigið samfélag á hverjum tíma. Það er vegna þess að blaðamennska þar sem menn leggja sig undir með greiningum hefur oft leitt til þess að blaðamenn jaðarsetji sig, þá hafa íhaldssöm og ráðandi öfl oft sakað blaðamenn um hlutdrægni, erfitt getur reynst fyrir sjálfstæða og valdalausa blaðamenn, hímandi á kanti samfélagsins, utan kjötkatlanna, að standast slíkar atlögur. Með öðrum orðum hefur verið innbyggður hvati í kerfinu fyrir blaðamenn að vera undirgefnir, að styggja ekki valdið. Er tilviljun að Jóhannes Kr. hefur hvergi átt sér fastan samastað lengi? Er tilviljun að okkar færasti rannsóknarblaðamaður hafi mátt lifa við hungurmörkin síðasta misserið?

Í þessu sambandi verður að geta þess að sú hugmnynd að blaðamaður geti verið hlutlaus er afar umdeild. Fagleg hlutlægni hefur verið krafa síðari ár meðal ráðandi blaðamennsku en sú umræða hefur verið uppi um skeið meðal blaðamannaskóla víða um heim, t.d. hjá Robert McChesney bandarískum boðskiptafræðaprófessor, að ef sú krafa sé tilfellt gerð til blaðamanna að þeir séu hlutlausir hagnist það valdhöfum mest, það er viðskipta-efnahagspólitísku valdi.

Þetta er mikikvægt að hafa í huga.
Líking Þorbjörns Broddasonar er einnig allrar athygli verð. \"Fjölmiðlar hafa tekið yfir hlutverk kirkjunnar og sameina þjóðina á mikilvægum tímamótum,\" er haft eftir doktor Þorbirni á vef Rúv þar sem vísað er til Víðsjárþáttarins.  Hann segir að stundir eins og Kastljósþátturinn síðastliðinn sunnudag brjóti blað í sögu þjóðar, hafi mikil áhrif, breyti gangi mála.

Hefur annars heyrst eitthvað frá biskupnum Agnesi um stöðuna?