Fáum við þriggja framsóknarflokka stjórn?

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur markvisst að því að mynda svonefnda þriggja framsóknarflokka stjórn þeirra, Framsóknar og Vinstri grænna. Heimildarmenn Dagfara halda því fram að Bjarni Benediktsson hafi unnið að myndun slíkrar stjórnar samhliða viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn. Sumir segja að þessar viðræður hafi verið sýndarmennska af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins sem birtist meðal annars í því að hann tók ekki þátt í viðræðunum sjálfur nema að hluta til. Meðan viðræðuhópurinn sat yfir viðræðunum fram á nætur, bauð Bjarni upp á það að koma og fara eftir hentugleikum. Það telst vera hreinn dónaskapur. Nú leikur grunur á því að hann hafi þá verið í viðræðum við Steingrím J. og Sigurð Inga.
 
Hvort þetta er rétt frásögn mun koma í ljós síðar. Því hefur ítrekað verið haldið fram að milli Bjarna og Steingríms sé leynilegur strengur vegna hagsmuna og fyrirgreiðslu frá tíma Steingríms í fjármálaráðuneytinu.
 
Ekki er talið að Katrín Jakobsdóttir sé hrifin af þessari ráðagerð. Alla vega ekki að svo stöddu. Hún vill raunverulega freista þess að koma saman fjögurra flokka stjórn sem nyti stuðnings Pírata sem þó ættu ekki sæti í stjórninni. Í þannig ríkisstjórn yrði hún ótvírætt forsætisráðherra en þá virðingarstöðu gæti hún ekki fengið í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Bjarni Benediktsson myndi ekki gefa það embætti eftir á ný. Hann lét það yfir sig ganga þegar Sigmundur Davíð myndaði fráfarandi stjórn. Bjarni mun enn sjá eftir því að hafa fallist á það en Sjálfstæðisflokkurinn var stærri en Framsókn eftir kosningarnar 2013. Verði Katrín forsætisráðherra yrði um sögulegan viðburð að ræða í íslenskum stjórnmálum því sósíalista hefur aldrei hlotnast sá heiður á Íslandi.
 
Þó áherslur séu misjafnar hjá VG og miðjuflokkunum þremur, þá ættu þessir flokkar ekki að vera í vandræðum með að ná saman um umbætur í sjávarútvegi og landbúnaði, kosningu um framhald viðræðna við ESB og aðgerðir til að bæta stöðu íslensku krónunnar. Væntanlega þyrftu miðjuflokkarnir að láta eftir VG einhverjar skattahækkanir á hátekjufólk, skerðingu á virkjunarkostum samkvæmt rammaáætlun og meiri fjárveitingar til velferðamála. Allir eru sammála um að setja heilbrigðiskerfið í forgang og að gera tilteknar endurbætur á stjórnarskrá lýðveldisins.
 
Á hvaða málefnum ætti þá að stranda? 
 
Ekki þyrfti heldur að vera ágreiningur um verkaskiptingu milli þessara flokka. Píratar segjast vilja fá í sinn hlut embætti forseta Alþingis sem hlýtur að teljast eðlileg og sanngjörn ósk. Katrín yrði forsætisráðherra og fengi með sér þrjá aðra ráðherra úr sínum flokki. Viðreisn hlyti að fá fjármálaráðuneytið og þrjú önnur ráðuneyti, ánægjulegt væri að sjá Óttar Proppé setjast í menntamálaráðuneytið og Björt í sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytið. Félagsmálin ættu að koma í hlut Loga Einarssonar enda er þar á ferð uppáhaldsmálaflokkur kratanna í gegnum tíðina. Ríkisstjórn yrði skipuð ellefu ráðherrum eftir að ráðuneyti samgöngu-og ferðamála yrði til.
 
Slit Bjarna Benediktssonar á viðræðum við BF og Viðreisn vegna sjávarútvegsstefnunnar sýnir að hann ræður ekki mestu í Sjálfstæðisflokknum heldur hafa forystumenn innan sjávarútvegsins sterk ítök innan flokksins. Flokkurinn hefur sýnt sitt rétta andlit sem gæsluflokkur sérhagsmuna hinna  fáu í sjávarútvegi og landbúnaði. Aðrir landsmenn skipta mun minna máli.
 
Umbótaflokkarnir á miðju og til vinstri verða nú að taka höndum saman til þess að unnt verði að gera breytingar á Íslandi í þágu þorra kjósenda. Tækifærið er núna en ekki síðar.
 
Því verður ekki trúað á VG að flokkurinn láti þetta tækifæri til umbóta ganga sér úr greipum. Því verður heldur ekki trúað á VG að flokkurinn gerist varahjól til þess að endurreisa ríkisstjórn sem kjósendur felldu í kosningunum fyrir þremur vikum.