Fallnir og særðir stjórnmálamenn sameinist

Sorglegt er að sjá Sigmund Davíð Gunnlaugsson engjast ennþá vegna þess að flokkur hans hafnaði honum í fyrra. Ekki bara einu sinni heldur tvisvar.
 
Nú reynir hann að vekja á sér athygli með því að stofna framfarafélag og skipa sjálfan sig formann. Með því telur hann sig fá vettvang til að láta ljós sitt skína. Hann hefur reyndar prýðilegan vettvang til þess sem heitir Alþingi. En til þess að láta ljós sitt skína þar þarf maður að mæta!
 
Á þessum nýja vettvangi geta þeir komið saman og sleikt sár sín sem hafa orðið undir í pólitík hér á landi í seinni tíð. Sigmundur Davíð hefur tekið fram að allir séu velkomnir í grátkórinn. Þátttaka er ekki bundin við vonsvikna og svekkta Framsóknarmenn.
 
Því gæti þetta orðið fjölmennur og þverpólitískur söfnuður. Af nógu er að taka. Dæmi um fallna og særða sem gætu átt erindi í þetta sorgarathvarf:
 
Hanna Birna Kristjánsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir,
Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Karl Garðarsson - svo fáeinir séu nefndir.
 
Væri svo ekki ráð að fá Gunnar Smára Egilsson í hópinn. Nýbúinn að setja Fréttatímann á hausinn og stofna Sósíalistaflokk Íslands á rústum hans.
 
Gunnar Smári gæti aukið breiddina í grátkórnum. Og hann verður aldrei uppiskroppa með nýjar eða gamlar hugmyndir.
 
 
rtá.