Er vinstri grænum treystandi

Nú er kosningabaráttan að þyngjast og farið að tíðka hin breiðari spjótin. Vinstri grænir reyna að spila sig afar heiðarlega og hreina með því að tefla vinsælum formanni sínum fram. Katrín Jakobsdóttir ræður yfir góðri og geðfelldri framkomu og nær að láta fólk trúa því að hún sé heil og ófekkuð í stjórnmálum. En þá gleymist að hún átti sæti í vinstri stjórninni frá 2009 til 2013 sem sannarlega gerði margt sem er gagnrýnisvert og ekki til eftirbreytni.

 
Dagfari er á þeirri skoðun að Vinstri grænir séu snjallir áróðursmenn. Þeir sýna Katrínu sem mest en fela Steingrím J. Sigfússon þegar því verður við komið enda er hann sá ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar sem er vægast sagt umdeildur og hefur ekki getað svarað fyrir ýmsar vafasamar gerðir sínar, eins og þegar hann afhenti hrægammasjóðunum Íslandsbanka og Arion banka. 
 
Vinstri grænir virðast einnig haf mikil tök innan RÚV. Þegar runnin er upp ögurstund í stjórnmálabaráttunni gerist það að Kastljós er tvívegis lagt undir hreinan vinstriáróður, grímulausar árásir á Sjálfstæðisflokkinn og fyrrverandi formenn hans. Dagfara fannst þátturinn með Evu Joly vera fyrir neðan allar hellur og svo fylgir í kjölfarið átta ára gömul frétt úr hruninu sem er stillt upp sem nýjum upplýsingum. Þar var ekkert nýtt á ferðinni. Einungis árásir á Geir Haarde og Davíð Oddsson fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins. Heyrst hefur að það sé stuttur þráður á milli Steingríms J og Helga Seljan. 
 
Af þessu tilefni hefur skrímsladeild Valhallar tekið saman meðfylgjandi lista yfir misgjörðir Vinstri grænna í vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms. Þessu er dreift í allar áttir og er vissulega merkileg lesning þegar þess er gætt að Katrín Jakobsdóttir var í ríkisstjórninni allan tímann og ber því fulla ábyrgð, þó fólki sé tamt að hengja  flestar misgerðir stjórnarinnar á Steingrím J. Sigfússon einan. Hann var að sönnu ekki einn að verki.
 
Rifjuð eru upp nokkur atriði og því velt upp hvort Katrínu Jakobsdóttur sé treystandi, þrátt fyrir sakleysislegt brosið nú fyrir kosningar:
 
  1. Icesave I.
  2. Icesave II.
  3. Icesave III:
  4. Móti þjóðaratkvæaðgreiðslu um aðild að ESB árið 2009.
  5. Samþykktu aðildarumsókn að ESB árið 2009.
  6. Kostnaður vegna aðildarumsóknarinnar er talinn hafa numið 3 milljörðum króna.
  7. ÁrnaPálslögin (nr. 151/2010) til varnar fjármagnseigndum og gegn skuldurum.
  8. Lögðust ekki gegn loftárásum NATO á Líbýu.
  9. Samþykktu leyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
  10. Veittu stóriðju á Bakka við Húsavík  sértækar undanþágur frá eðlilegri skattlagningu.
  11. Veittu ríkisábyrgð vegna Vaðlaheiðargangna þar sem allar áætlanir eru úr lagi gengnar.
  12. Hefndardómsmál í Landsdómi gegn Geir Haarde einum.
  13. Hleyptu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum inn á gafl í stjórnarráði Íslands.
  14. Hækkuðu skatta á almenning.
  15. Gerðu ekkert til hjálpar almenningi vegna skuldastöðu í kjölfar hrunsins.
  16. Ófrægingarherferð gegn Ríkisendurskoðun vegna kaupa á bókhaldskerfi fyrir ríkið.
  17. Íslandsbanki gefinn kröfuhöfum.
  18. Arionbanki gefinn kröfuhöfum.
  19. Lögðu fram 16 milljarða króna að óþörfu til bjargar Sjóvá. Tapið féll á almenning.
  20. Endurreistu Sparisjóðinn í Keflavík án þess að hann ætti sér von. Kostaði ríkið 25 milljarða.
Samkvæmt ofangreindu finnst Dagfara að full ástæða sé til að hafa varann á gagnvart Vinstri grænum . Þeir eru ekki eins geðþekkir og sakleysislegir og formaður þeirra lítur út fyrir að vera – skælbrosandi rétt fyrir kosningar.