Er þriggja framsóknarflokkastjórn í kortunum?

Línur eru talsvert farnar að skýrast eftir birtingu stórrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar í dag. Úrtakið er mun stærra en verið hefur, svarhlutfall hærra og vísbendingar um helstu strauma því marktækari.
 
Vinstri grænir halda áfram að lækka flugið, Samfylking er að festast kringum 15% og fylgi Sjálfstæðisflokks er að lenda við 25 prósentin.
 
Viðreisn er á hraðri uppleið eftir formannsskiptin, fær nú 5,7% sem er mikil hækkun á einni viku úr 3,4%. Framsókn hækkar einnig og fær nú 7,1%.
 
Miðflokkurinn er enn með ótrúlega mikið fylgi samkvæmt könnuninni eða 9,8%.
Píratar eru áfram á niðurleið og Björt framtíð ásamt Flokki fólksins munu alls ekki koma mönnum á þing.
 
Í ljósi framangreindrar þróunar er hér spáð eftirfarandi úrslitum kosninganna eftir viku:
 
1. Sjálfstæðisflokkur heldur sama fylgi og í skoðanakönnuninni frá í dag, fær 25,1% og 17 þingmenn.
 
2. Vinstri græn halda áfram að lækka flugið og lenda með 20,5% og 14 þingmenn.
 
3. Samfylking nær 14,5% og 10 þingmönnum.
 
4. Píratar fá 9% og 6 þingmenn.
 
5. Framsókn bætir heldur við sig á kostnað Miðflokksins. Fær 8,5% og 6 þingmenn.
 
6. Miðflokkurinn gefur aðeins eftir, fær 8,5% og 5 þingmenn.
 
7. Viðreisn heldur áfram að bæta við sig og endar með 8% fylgi og 5 þingmenn.
 
Ef úrslit kosninganna yrðu þessi, þá væru mestar líkur á að Sjálfstæðisflokkur myndaði á endanum svokallaða þriggja Framsóknarflokka ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsókn.
 
Slík ríkisstjórn yrði kyrrstöðustjórn sem hefði að meginmarkmiði að tryggja að engar breytingar yrðu gerðar varðandi fiskveiðistjórnun, gjaldmiðlamál og landbúnaðarkerfið.
 
Einangrunarhyggja yrði fest í sessi til næstu ára.
 
Rtá.