Er stóra krísan í sjálfstæðisflokknum að leysast?

Ási út – Unnur inn – Sigríður Andersen út?

 

Allt stefnir í að Ásmundi Friðrikssyni verði fórnað út af vandræðalegu klúðri hans varðandi ofteknar fjárhæðir úr sjóðum Alþingis vegna bílastyrkja. Því er haldið fram að hann hafi oftekið bílakostnað sem nemur um 2,5 milljónum króna á ári. Hann hefur verið þingmaður í 5 ár. Hafi þetta verið svona öll árin, þá hefur Ásmundur tekið við um 12 milljónum króna af opinberu fé umfram það sem eðlilegt getur talist. Hér er um skattfrjálsar greiðslur að ræða sem gerir málið helmingi verra fyrir Ásmund.

 

Athygli vekur að enginn félaga hans í Sjálfstæðisflokknum hefur komið honum til varnar. Aðrir þingmenn segja ekkert, hvað þá formaður flokksins. Ásmundur er skilinn eftir einn á sviðinu. Hann fór í Kastljóssviðtal í gær sem gerði stöðu hans hálfu verri; hann sagði ósatt, hann sýndi hroka, hann taldi ekkert athugavert við þessa umgengni þingmanns um opinbert fé og loks greip hann til þess örþrifaráðs að reyna að etja saman landsbyggð og höfuðborginni með því að tala um “101-ROTTUR”.

 

Það er opinbert leyndarmál að alþingismenn og ráðherrar fá alls konar skattfrjálsar greiðslur og hlunnindi sem standa almennum borgurum ekki til boða samkvæmt skattalögum. Dæmi um það er að ráðherrar og forseti Alþingis hafa ráðherrabíla og bílstjóra til frjálsra afnota án þess að greiða tekjuskatt af þeim hlunnindum eins og mælt er fyrir um í skattalögum með mjög skýrum hætti.

 

Ásmundur Friðriksson er að sönnu ekki einn um að móttaka vafasamar greiðslur frá Alþingi. Þess vegna vekur það sérstaka athygli að enginn sjálfstæðismaður skuli koma honum til hjálpar þegar sótt er að honum úr öllum áttum. Það kann að eiga sér skýringu.

 

Nú gæti forysta flokksins séð sér leik á borði. Ásmundur er ekki stóra vandamálið í flokknum um þessar mundir heldur dómsmálaráðherrann Sigríður Andersen sem er rúin trausti eftir að hafa hlotið dóm í Hæstarétti. Flokksforystan hlýtur að vilja skipta henni út fyrir annan dómsmálaráðherra. En varla verður það gert með öðrum hætti en þeim að kona kæmi í embættið í stað Sigríðar. En engin kona er í þingflokki sjálfstæðismanna sem hefur burði til að taka við embættinu.

 

Komi til þess að Ásmundur neyðist til að segja af sér þingmennsku, kemur Unnur Brá Konráðsdóttir inn sem þingmaður í hans stað en hún féll af þingi í kosningunum síðasta haust. Það var flokknum mikið áfall því hún hafði gegnt embætti forseta Alþingis og gæti tekið við sem ráðherra.

 

Staða Sigríðar Andersen er risastórt óleyst vandamál í Sjálfstæðisflokknum. Vera hennar í ríkisstjórn er hrein krísa sem mun einungis vinda enn frekar upp á sig og versna. Kvenmannsleysi í þingflokknum hamlar breytingum eins og sakir standa.

 

Það er því freistandi að fórna Ása og því er enginn að rétta honum hjálparhönd. Ef hann víkur er Unnur Brá Konráðsdóttir komin á þing og þá er hægt að skipta Sigríði Andersen út sem dómsmálaráðherra í stað Unnar sem tæki við.

 

Þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst.

 

BINGÓ!

 

Rtá.