Er illugi að máta sig í leiðtogakjör sjálfstæðisflokksins?

 
 Síðustu daga hafa menn velt því fyrir sér hvort Illugi Gunnarsson sé nú að gæla við að fara í leiðtogaprófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík en mikil örvænting ríkir nú innan flokksins í borgarmálum.
 
Illugi datt út af þingi í síðustu kosningum eins og kunnugt er og féll úr ríkisstjórninni við stjórnarmyndun þann 11. janúar sl. Hann hefur gleymst mjög hratt enda skilur stjórnmálaferill hans ekki eftir sig nein spor.
 
Í tilefni af fimmtugsafmæli sínu hefur hann gert svolitla tilraun til að minna á sig. Sumir halda að með því sé hann að freista þess að kanna hvort hann gæti haft byr í leiðtogaprófkjörinu.
 
Illugi bauð mörghundruð manns á fyrirlestur í gær í tilefni afmælisins en fremur fáir mættu.
 
Umræðuefnið á fundi Illuga var af stærri gerðinni; nánast skilgreining nýrrar iðnbyltingar og hvernig borgaralega sinnuð öfl ættu að bregðast við.
 
Illugi hefur ekki getið sér orð fyrir að vera sérstaklega vel læs á nærumhverfi sitt hér á Íslandi og því ekki líklegt að margir nenni að hlusta á hugleiðingar hans um breytta heimsmynd í kjölfar tæknibyltingar.
 
Fari Illugi í leiðtogaprófkjör, þá gæti hann att kappi við Pál Magnússon sem Illugi lét reka frá RÚV. Það yrði alvöru leðjuslagur!
 
Reyndar er óþarfi að dvelja um of við þessar vangaveltur því Guðlaugur Þór Þórðarson, sterki maðurinn í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, vill ekki sjá Illuga. Því mun honum ekkert verða ágengt. Guðlaugur hefur heldur engan áhuga á Páli og því mun hvorugur þeirra hljóta brautargengi.
 
Illugi Gunnarsson mun því halda áfram að banka upp á og leita sér að samastað.
 
Rtá