Kvikan: er í lagi með forsætisráðherra?

Mér hefur stundum dottið í hug að versta kvöl sem rekið gæti á fjörur mínar í jarðlífinu væri að þurfa að þegja mjög lengi í einu.

Það eru vondar fréttir í sjálfu sér, því af öllu því fólki sem ég hitti dags daglega ber ég einna mesta virðingu fyrir sterku, þöglu týpunni svokölluðu.

Ég dái munkana í Tíbet sem sverja þagnareið og hafa eftir því sem fram hefur komið í heimildarmyndum höndlað andlega leið til að lifa lífinu, mildir, brosandi, hljóðlátir, sjálfbærir. Dái þá vegna þess að ég myndi seint treysta sjálfum mér til að leysa þá af. Þótt ekki væri nema í stuttan tíma! Sit upp með sjálfan mig, skoðanaglaðan, forvitinn, gjammandi, jafnvel á viðkvæmustu stundum. Ég minnist margra augnablika þar sem betra hefði verið að þegja.

Fyrir hefur komið að mér hefur liðið illa í sálinni, jafnvel löng tímabil í einu. Þá þegi ég reyndar oft í nokkurn tíma og geri iðulega lítið af mér á meðan. Verra er þegar önuglyndi verður til þess að ég sé drauga í hverju horni. Stundum vekja draugarnir upp æsing, sem er afleiðing einhvers konar sjálfsvarnar, held ég. Þá hrjóta gífuryrðin fram, jafnvel eitthvað sem mætti kalla heimsenda- eða þá heimsmetaorðalag - stundum er stutt á milli. Mest verða lætin í mér þegar sjálfstraustið verður agnarsmátt og brýst út í oflæti. Vanlíðan getur leitt til þess að mitt eigið egó leggst yfir mig af slíkum heljarþunga að bæði mér og nálægum getur þá legið við andþrengslum. Þá dreg ég gjarnan einhver meint afrek upp úr pokahorninu til að sanna að ég sé gildandi gaur, seilist jafnvel langt aftur í tímann í metorðaskránni. Tíni eitthvað til sem mér dettur í hug að geti aukið álit viðstaddra á sjálfum mér. Geri það til að breiða yfir vanmátt og efasemdir.  Stundum staddur í verkefni sem mér finnst ég varla ná að valda.

Vitaskuld sjá flestir í gegnum svona varnardramb, enda er það falli næst. Efasemdir hrannast gjarnan upp í kringum þann sem getur ekki talað um neitt annað en sjálfan sig og eigin afrek, allt í efsta stigi og ef orðinu er vikið að öðrum falla dómar, stundum þungir og retórískir palladómar. Kannast einhver við lýsinguna? Þekkjum við þetta í fleirum? Viðvörunarbjöllurnar hringja hvað hæst þegar þessi týpa dregur upp þá mynd af sjálfum sér að hún njóti aldrei sannmælis. Okkur fer þá að gruna að sá sem talar svona sé ekki staddur á góðum stað. Við vitum nefnilega, flest okkar, að þegar maður er sáttur við sjálfan sig og situr vel í eigin sál, þarf maður ekki að ræða eigið ágæti. Sáttin er nefnilega sjálfbær. Þegar maður er sáttur kviknar mestur áhugi á öðru fólki, félagsfærnin tekur stökk uppávið. En sá sem upphefur sjálfan sig og sýnir ekki öðrum áhuga nema til þess eins að dæma þá eða nýta þá aðeins sem hlustendur, annað hvort sem jábræður eða til að hrauna yfir þá, hegðar sér iðulega þannig út af einhverri flækju sem ekki hefur náðst að greiða úr.

Að þessum aðfararorðum sögðum dettur mér í hug að gott gæti verið að hafa svona veikleika í huga þegar við ræðum þá sem hafa mest um það að segja hvernig öðrum líður, t.d. stjórnmálamenn og aðra leiðtoga. Víkur þá sögu að forsætisráðherra vorum sem notar allt of margar stundir í að mæra eigin afrek, eigin mikilfengleika. Sá kann reyndar nokkur brögð til að klæða svoleiðis sjálfsáróður inn í trójuhest. Hann tengir sig við nokkra hópa. Hyllir hópana sem heilagar verur. Þannig er mengið sjálfstæðir Íslendingar eitthvað sérlega stórkostlegt af því að forsætisráðherrann er sjálfur Íslendingur. Hvort hann er í raun sjálfstæður, veit ég ekki. En hann veit að hann mun þurfa að reiða sig á íslensk atkvæði en síður álit umheimsins ef hann ætlar sér framgang áfram. Þess vegna talar hann og breytir eins og hann gerir sem veltir upp þeirri spurningu hvort forsætisráðherra líði vel. Kári Stefánsson segir að fýlan í forsætisráðherra sé orðið sérstakt vandamál.

Forsætisráðherra hóf feril sinn sem slíkur með gífuryrðum um loftárásir fjölmiðla ef þeir voguðu sér að sýna sjálfstæði, fjölluðu gagnrýnið um fyrstu embættisverkin sem fólust í því að gefa útgerðarmönnum gjafir. Enn skammar ráðherra fjölmiðla og aðra sem veita honum aðhald sem aldrei fyrr. Skrifar greinar um egó annarra, skrifar greinar um bresti þeirra sem ekki eru sammála honum. Kvartar nánast daglega undan að hann njóti ekki sannmælis. Þetta vekur sterkan grun um að forsætisráðherra líði ekki vel með sjálfan sig og eigið hlutskipti.

Ef forsætisráðherra væri sáttur við sjálfan sig myndi hann sennilega hafa meiri getu en raun ber vitni til að velta því fyrir sér hvernig okkur borgurunum liði. Hann gæti þá hlustað á okkur og aðhafst á grunni vilja okkar, tilfinninga og lýðræðisóskar. Þannig eru góðir landsfeður. Þannig eru góðar landsmæður. En aumingja forsætisráðherra og þunga egóið hans. Róttæk rökhyggja, segir hann um eigin stefnu. Eða bara róttækur vanmáttur með dashi af vel þjálfaðri retórík, myndu kannski aðrir segja. Lágt eldsneytisverð og endalaus uppgangur í ferðaþjónustu eru þær gjafir sem mestu hafa ráðið um uppgang Íslands síðan SDG náði völdum með heppni. Og loforðum sem höfðuðu til hins trúgjarna, eigingjarna Íslendings. Forsætisráðherra er heppinn með ytri þætti - af hverju er hann þá ekki glaður? Af hverju krefst hann þess að þjóðin þakki sér persónulega allan hagrænan ávinning sem þó er mestur hjá þeim sem þekkja forsætisráðherra persónulega. Aumingja forsætisráðherra og súperegóið hans.

Góð þjóð á skilið góða leiðtoga. Sá sem ekki getur sæst við sjálfan sig er ekki líklegur til að ná sátt við eigin þjóð. Sá sem á í sífelldu stríði við sjálfan sig á einnig í stríði við eigin þjóð, mannkynssagan er til vitnis um það. Svoleiðis foringi ætti kannski að stíga til hliðar þegar traustið er horfið eins og fylgiskannanir eru til vitnis um. Svoleiðis foringi er búinn að mála sig út í horn og þarf hjálp eða ráðgjöf við að komast út úr eigin aðstæðum. Hann ætti að  leita nýrra leiða til að nýta þá óumdeildu styrkleika sem forsjónin gefur okkur öllum og þá ekki síður forsætisráðherra en öðrum. Ef við ráðum ekki við okkar verkefni líður okkur ekki vel. Þá er stutt í blaming and shaming. Öll framkoma forsætisráherra ber keim af því að hann hafi loks klárað sína doktorsgráðu, en því miður fyrir okkur sem ekki tilbiðjum hann, hefur hann náð sér í doktorsgráðu í blaming and shaming!

Persónuvandi einstaklinga er ekki einkamál þeirra sem sitja í æðstu stöðum. Þjóðarleiðtogar hafa iðulega mest allra að segja um líðan hins almenna manns. Ábyrgð æðstu þjóðarleiðtoga er einfaldlega allt of mikil til að endalaust sé hægt að kóa með leiðtogum sem ráða ekki við hlutskipti sitt.

Samfélög eiga skilið góða og hrausta stjórnendur, sem ekki eru fullir af sjálfum sér. Of mikið er undir til að hægt sé að gefa nokkurn afslátt frá því. Spurningin er: Er í lagi með forsætisráðherra?

Kannski þarf hann aðstoð. Og ef það er þannig geta þau sem standa honum næst í pólitíkinni sennilega hvorki gert honum sjálfum né þjóðinni neitt verra en að líta undan ástandinu, vegna skammtímahagsmuna, ótta, ringlunar eða meðvirkni.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)