Er hlutverki samfylkingarinnar lokið?

Samfylkingin rær nú lífróður. Á næstu 8 dögum kemur í ljós hvort flokkurinn þurrkast út af Alþingi Íslendinga eða heldur velli og þá sem lítill stjórnmálaflokkur. Vorið 2013 var þessi flokkur með 20 þingmenn starfandi á Alþingi eftir að hafa í kosningunum 2009 hlotið 29,8% atkvæða. Samfylkingin var þá langstærsti stjórnmálaflokkur landsins. 

 
Breytingin sem orðið hefur síðan er ótrúleg og ætti að vera nálægt því að komast í heimsmetabók Guinnes.
 
Margir stjórnmálamenn ræða fjálglega um stöðu Samfylkingar og gráta krókódílatárum yfir stöðu flokksins. Það kemur ekki á óvart því enginn er annars bróðir í leik. Það eru hins vegar miklu meiri tíðindi þegar fyrrverandi forystumaður flokksins segir að draumurinn sé búinn og að hlutverki flokksins sé lokið. Þá er vísað í orð Sighvats Björgvinssonar, fyrrum þingmanns, ráðherra, formanns Alþýðuflokksins og ritstjóra Alþýðublaðsins. Dýpra verður ekki komist inn í kjarna eins flokks en með þessum ferli hans. Sighvatur var einnig í fremstu víglínu þeirra stjórnmálamanna sem stofnuðu Samfylkinguna upp úr flokkum og flokksbrotum á miðju og vinstri kanti stjórnmálanna. 
 
Að Sighvatur Björgvinsson afskrifi nú Samfykinguna segir allt.
 
Í frétt á Eyjunni segir Sighvatur að Draumurinn um Samfylkinguna hafi horfið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hann telur einnig að vond staða flokksins nú sé flokknum sjálfum að kenna.  “…… hann yfirgaf markmiðið um að sameina jafnaðarmenn gegn Sjálfstæðisflokknum og því komi það ekki á óvart að flokkurinn mælist með jafn lítið fylgi og raun ber vitni.”
 
Sighvatur telur að stjórnarsamstarf Samfylkingar við Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007 marki upphafið að endalokunum. Hann segir að tilgangur flokksins hafi verið sleginn út af borðinu fyrir nærri áratug.
 
Í skoðanakönnun sem Morgunblaðið birti föstudagsmorgun kom fram að Safmylkingin fengi 6,5% atkvæða í komandi kosningum og næði með því 4 þingmönnum. Þessi staða sýnir að ekkert má útaf bregða hjá flokknum á næstu dögum til þess að hann falli hreinlega út af Alþingi. Nái hann ekki 5% á landsvísu eða einum kjördæmakjörnum þingmanni, þá fær flokkurinn engan mann kjörinn á þing.
 
Gangi þessi skoðanakönnun eftir yrðu eftirtaldir þingmenn Samfylkingar eftir kosningar: Oddný Harðardóttir formaður, Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
 
Dagfari trúir því ekki að Samfylkingin þurrkist út af Alþingi. Hins vegar verður varnarbarátta flokksins hörð. Samfylkingin býr yfir mikilli reynslu og kosningavél sem hlýtur að verða keyrð í botn næstu 8 daga.
 
Verði það hins vegar örlög Samfylkingar að hverfa af vettvangi þingsins, þá hlytu það að teljast með mestu pólitísku tíðindum seinni ára á Íslandi. Stjórnmálalífið hér á landi yrði alla vega fátæklegra ef sú yrði raunin.