Er hinn þreytti öldungur saddur lífdaganna?

Dagfari er kurteis og því óskar hann Framsóknarflokknum til hamingju með 100 ára afmælið. Hann þakkar einnig fyrir boðið í afmæli flokksins en segir eins og Brynjar Níelsson þingmaður að hann sé ekki búinn að ákveða í hvaða afmæli flokksins hann mæti.
 
Á þessum tímamótum liggur fyrir að flokkurinn er klofinn í herðar niður. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem var formaður Framsóknar þar til fyrir 2 mánuðum, ætlar ekki að mæta í 100 ára afmælisveislu flokksins í Þjóðleikhúsinu því hann ætlar sjálfur að halda partý á Akureyri á sama tíma fyrir stuðningsmenn sína þar. Sigmundur Davíð undirstrikar með þessu djúpstæðan klofning í flokknum og hann ítrekar einnig félagslegan vanþroska sinn. Sigmundur kann ekki að tapa. Hann hefur ekki þroska til að taka tapi og því hagar hann sér eins og baldinn krakki. Sigmundur mun halda áfram valdabrölti sínu og réttir enga sáttahönd innan Framsóknar. Ekki einu sinni á hátíðisdegi eins og þessum. Átökin innan flokksins eru rétt að byrja.
 
Á þessum tímamótum er Framsókn því klofinn flokkur og ekki talinn stjórntækur eins og staðan er nú.
 
Á þessum tímamótum er Framsóknarflokkurinn á leiðinni út úr umdeildri ríkisstjórn, væntanlega innan fárra daga eða vikna.
 
Á þessum tímamótum er Framsókn með minnsta fylgi og fæsta þingmenn í sögu flokksins eftir að hafa goldið afhroð í nýafstöðnum kosningum. Flokkurinn missti 11 þingmenn frá síðustu kosningum.
 
Á þessum tímamótum getur Framsóknarflokkurinn litið yfir forystu sína síðustu 10 ár og þá kemur í ljós að frá árinu 2006 hafa alls 6 menn gegnt formennsku í lengri eða skemmri tíma. Ekki ber það vott um mikinn stöðugleika í forystu flokksins. Þar á undan hafði Halldór Ásgrímsson verið formaður í 12 ár og á undan honum Steingrímur Hermannsson í 15 ár. Þá ríkti stöðugleiki í forystu flokksins.
 
Á þessum tímamótum er bent á það að Framsókn hafi verið við völd á Íslandi með aðild að ríkisstjórnum samtals í 62 ár. Spyrja má hvort ekki sé nóg komið, alla vega í bili. Eru ekki prýðileg rök fyrir því að flokkurinn fái hvíld frá ríkisstjórnarþátttöku næstu árin?
 
Niðurstaðan af þessu öllu er sú að Framsóknarflokkurinn er örþreyttur öldungur sem virðist nú vera orðinn saddur lífdaganna.
 
Þó Dagfari óski Framsókn alls hins besta á aldarafmælinu, þá er hann alls ekki viss um að flokkurinn eigi framtíðina fyrir sér. 
 
En Framsókn á framtíðina sannarlega að baki.