Er föðurbróðir bjarna trúverðugur?

 
Áhugaverðasta uppslátt vikunnar átti Fréttablaðið að mínu mati sl. fimmtudag. Þá gaf að líta á forsíðu blaðsins eftirfarandi fyrirsögn með allvænu letri: “Einar ræddi Borgunarmálið ekki við Bjarna frænda sinn”.
 
Þetta var fyrirsögn á fjórum hæðum. Þar sem Borgunarmálið er pólitískt sprengiefni las ég spenntur fréttina alla til að sjá hvaða sönnun væri fyrir þessari stóru fullyrðingu. En hana vantaði með öllu. Heimildin var bara Einar Sveinsson, titlaður fjárfestir. Hann er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni hefur líka neitað því að frændsemi sé um að kenna að svo fór sem fór en málið er eigi að síður afar viðkvæmt. Þessi tengsl, að ættingi Bjarna hafi stórhagnast á sölunni en almenningur misst af milljörðum eru staðreynd, hvað sem hver segir.
Sjálfur hefði ég ekki treyst mér til að birta þessa fyrirsögn Fréttablaðsins ef ég hefði verið ritstjóri þar á bæ. Það byggi ég m.a. á því að trúverðugleiki Einars er samkvæmt eldri fréttum býsna laskaður.
 
“Engeyingur reyndi að koma milljarði undan skatti með fléttu”.
 
Svo hljóðaði fyrirsögn í DV 13. febrúar árið 2014.
 
Ágætt er fyrir íslenska skattgreiðendur að fá upprifjun á þessari frétt, eins og hún leggur sig. Ekki varð ég var við að fréttinni væri mótmælt á sínum tíma. Að hún standi enn tveimur árum síðar á vefnum segir sitt. Fréttin er svona:
 
“Einar Sveinsson af Engeyjarættinni hefur tapað máli gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Einar vildi koma 964 milljónum króna undan skatti en skattstjóri lagði árið 2009 auka fjármagnstekjuskatt að andvirði 119 milljóna króna á hann.
Því vildi Einar ekki una en tekjuskatturinn var tilkominn vegna gífurlegs hagnaðar hans á sölu Glitnisbréfa árið 2007. Einar beitti fyrir sig viðskiptafléttu og vildi draga þannig úr tekjuskattstofni sínum.
Einar er búsettur í Bretlandi en hann býr samkvæmt heimildum DV þar af skattalagaástæðum. Þá var Sérstakur saksóknari að rannsaka mál hans og lét meðal annars hlera síma hans.
Flétta með verðlausa hluti
Álitamálið snýst um fremur flókna viðskiptafléttu Einars og eiginkonu hans, Birnu Hrólfsdóttur. Með fléttunni ætluðu þau að skjóta milljarði króna undan skatti.
Einar seldi hlutabréf í Glitni þann 5. apríl 2007 og hagnaðist um 2.447 milljónir króna á þeirri sölu. Í ágúst sama ár keyptu hjónin svo átta milljónir hluta í breska félaginu Melrose PLC, og greiddu fyrir það sjö milljónir punda, 1.024 milljónir króna árið 2007.
Hlutirnir voru verðlausir en hjónin létu félagið síðar greiða sér út arð sem nam þá 936 milljónum króna, 7,315 milljónum punda, viku eftir kaupin. Í millitíðinni létu þau Glitni kaupa verðlausu bréfin á tíu pund, þá um tólf hundruð krónur, og héldu því fram stórfelldu tapi á sölunni. Einar er fyrrum stjórnarformaður bankans.
Milljarð krónu undanskot
Tapið ætluðu þau að nota til að skjóta tæpum milljarði króna undan skatti. Ekki féllst Ríkisskattstjóri á það og tilkynnti Einari árið 2009 að til stæði að hafna því að hann fengi að draga umræddan milljarð frá tekjuskattstofni sínum árið 2008. Einnig var lagt auka 25 prósent álag á þá upphæð.
Dómarinn féllst á þessa niðurstöðu skattayfirvalda en orðrétt segir í dómnum: „Samkvæmt því sem rakið hefur verið fellst dómurinn á þá niðurstöðu yfirskattanefndar að telja verði hafið yfir allan vafa að hin svonefndu „C Deferred Shares“ í Melrose PlC hafi verið verðlaus eða því sem næst verðlaus í hendi stefnenda [Einars og Birnu, innsk. blm.] þegar þau ráðstöfuðu bréfunum með milligöngu Glitnis banka hf. hinn 23. ágúst 2007 svo sem söluverðið 10 GBP sé órækastur vottur um.“
„Verður því að líta svo á að verðlagning bréfanna hafi eingöngu verið að nafninu til og verði því ekki byggt á hinni umdeildu ráðstöfun í skattalegu tilliti. Hinn umkrafði frádráttur feli þannig í sér afskrift hlutabréfanna þar sem hlutafé Melrose PLC, þ.e. „C Shares“, féll niður á árinu 2007 við útgreiðslu arðs og útgáfu hinna svonefndu „C Deferred Shares“ sem voru nánast verðlaus og án nokkurra réttinda hjá félaginu.“
Ríkið var sem áður segir sýknað af kröfum hans og þarf hann aukinheldur að greiða 1,6 milljón króna í málskostnað.
Einar Sveinsson var umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun en hann er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.”
Hefur Einar Sveinsson slíkan trúverðugleika eftir það sem á undan er gengið, að hægt sé að slá upp sem staðreynd að bæði Bjarni og Einar séu saklausir af samráði vegna þess að annar þeirra eða báðir segi eitthvað?
Þarf ekki alvöru rannsókn til að upplýsa þetta mál?
Hvað með skilaboðin í Rannsóknarskýrslu Alþingis?
 
(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)