„Enn í dag að syrgja að ég er ekki með brjóst“

Sóley Björg Ingibergsdóttir er ung Suðurnesjakona sem hefur gengið í gegnum erfiða lífsreynslu en aðeins 26 ára gömul greindist hún með krabbamein í brjósti og eitlum. Sóley er BRCA2 arfberi. Í krabbameinsmeðferðinni gekkst hún undir brjóstnám á báðum brjóstum, erfiða lyfjameðferð og geislameðferð. Sóley sagði sögu sína í Suðurnesjamagasíni í síðustu viku. Það var þó aðeins fyrri hluti sögunnar. Í þætti vikunnar, sem sýndur verður á fimmtudagskvöld kl. 19:30 á Hringbraut og vf.is, verður haldið áfram þar sem frá var horfið.

„Lyfjameðferðin er það erfiðasta. Ég var þreytt að labba upp stiga. Það eru mjög erfiðar aukaverkanir sem margir eiga erfitt með að tala um. Slímhúðin fer. Bara það að fara á klósettið að gera númer tvö var ógeðslega erfitt og það eru sár á ömurlegum stöðum,“ segir Sóley m.a. í viðtalinu sem birt verður á fimmtudagskvöld.

„Aðgerðin sjálf var ekkert erfið en andlega var þetta mun erfiðara. Þegar ég vaknaði eftir brjóstnámið var ég í hvítum íþróttatopp og með umbúðir og sá ekki neitt. Viku eftir aðgerðina þurfti að taka umbúðirnar. Ég fékk hjálp við að klæða mig úr toppnum því ég gat það ekki sjálf. Hjúkrunarfræðingurinn tók umbúðirnar. Ég sá ekkert en rétt leit niður … og fór bara að gráta. Hún spurði mig hvort ég vildi sjá mig en ég vildi það ekki. Það tók mig nokkra daga að bara vera tilbúin að sjá mig. Mér fannst ekkert mál að sýna öðrum skurðinn, t.d. hjúkrunarfræðingnum. Ég þorði ekki að sjá mig í spegli – en svo gerðist það. Mamma var hjá mér og mágkona mín sem sagði við mig: „Stattu upp, þú ert að fara að sjá þig. Þú ert geggjuð.“ Þetta var um tveimur vikum eftir aðgerðina.

Þetta er vel gert og magnað að sjá. Maður gerir sér samt ekki grein fyrir því hvað þetta er og hvers maður saknar af sjálfum sér. Ég er enn í dag alveg að syrgja að ég er ekki með brjóst. Vera ekki eins og allir hinir. Það er alveg erfitt en maður tekur bara einn dag í einu,“ segir Sóley Björg Ingibergsdóttir í einlægu viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta.